Í flámæli falla annars vegar saman löngu sérhljóðin i og e, og hins vegar löngu sérhljóðin u og ö. Flámæli fannst í einhverjum mæli víðast hvar á landinu, en aðallega á þremur ótengdum svæðum, Austurlandi frá Norður-Múlasýslu til Austur-Skaftafellssýslu, Húnavatnssýslum og suðvestanverðu landinu. Þá var það algengt í vestur-íslensku.
Flámæli sker sig frá flestum eða öllum öðrum landshlutabundnum framburðartilbrigðum að þrennu leyti. Það fannst í fyrsta lagi aðallega á þremur stöðum á landinu sem liggja ekki saman. Í öðru lagi var það fordæmt og markvisst reynt að útrýma því. Í þriðja lagi er flámæli ólíkt öðrum landshlutabundnum afbrigðum nýjung en ekki eldra mál. Það þótti því vont mál og með markvissri baráttu í skólakerfinu og aðstoð almenningsálitsins, var það svo til þurrkað út. Það gekk svo langt að nefnd á vegum fræðslumálastjóra og menntamálaráðuneytisins lagði til um miðja síðustu öld að dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins og stjórn Þjóðleikhússins sæju til þess að flámælt fólk kæmi ekki fram.
Frumflutt
17. nóv. 2019
Aðgengilegt til
16. sept. 2025
Orð af orði
Þáttur um íslenskt mál og önnur mál.
Umsjón: Anna Sigríður Þráinsdóttir og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir.