Færeyingar eiga sín eigin orð yfir föllin fjögur, sem eiga rætur að rekja til fornafnsins hvør, sem svarar til hver á íslensku. Nefnifall heitir á færeysku hvørfall, þolfall er hvønnfall, þágufall nefnist hvørjumfall og eignarfall heitir hvørsfall. Hið síðastnefnda er þó nánast horfið úr málinu. Þegar rætt er á færeysku um eignartengsl eru til nokkrar leiðir, sem komið hafa í stað hins horfna eignarfalls. Til dæmis er hægt að hengja endinguna -sa aftan á nafnliði sem vísa til mannfólks. Ef Tummas á dómaraskrifstofunni (á færeysku Tummas á dómarakontórinum) á bíl, er á færeysku hægt að segja „Tummas á dómarakontórinumsa bilur“. Stundum er sagt að eignarfall í íslensku standi höllum fæti og ef til vill getur staðan í færeysku sagt okkur eitthvað um horfurnar í íslensku.
Frumflutt
3. nóv. 2019
Aðgengilegt til
2. sept. 2025
Orð af orði
Þáttur um íslenskt mál og önnur mál.
Umsjón: Anna Sigríður Þráinsdóttir og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir.