Torfi Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Frakklands, verður gestur okkar í upphafi þáttar. Við ætlum að ræða franska pólitík en enn hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn þar eftir þingkosningarnar í sumar.
Breska hljómsveitin Oasis boðaði í gær endurkomu sína en hljómsveitin leikur á fjórtán tónleikum á næsta ári, þegar 16 ár verða frá því að sveitin hætti vegna deilna bræðranna Noel og Liam Gallagher. Við ræðum þessi tíðindi og endurkomu brit-popsins við Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands og tónlistarsérfræðing.
Við rekjum fjármál kvikmyndagerðar með Björni Berg Gunnarssyni en fréttir af hagnaði kvikmynda eru, samkvæmt honum, nær alltaf rangar.
Það fór ekki framhjá nokkrum manni að peningastefnunefnd seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% enn einn ákvörðunarfundinn í röð. Hver er staðan á fasteignamarkaði í einhverju hæsta stýrivaxtaumhverfi heims? Við tökum púlsinn á Moniku Hjálmtýsdóttur formanni Félags fasteignasala.
Viðskiptaráð birti í gær úttekt á opinberu eftirlitsumhverfi á Íslandi þar sem fram kemur að það standi samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi útfærslur hafi verið valdar auk þess sem fjöldi og umsvif eftirlitsstofnana séu mikil samanborið við grannríki. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, koma til okkar og ræða úttektina og hvort og hvaða breytingar þurfi að gera á opinberu eftirliti.
Tónlist
AIR - Playground Love.
Phoenix ft. Ezra Koenig - Tonight.
OASIS - Don't Look Back In Anger.
GDRN x Flóni - Lætur mig.
Madness - Our House.
Nýdönsk - Fullkomið farartæki.
Snorri Helgason - Haustið '97.