Skáldkonurnar Kristín Arngrímsdóttir og Sigrún Björnsdóttir gefa á þessu hausti út smáprósa- og ljóðabækur. Kristín með prósabókina Glampar sem byggð er á endurminningum hennar frá uppvaxtarárunum á prestsetrinu Odda á Rangárvöllum, þar sem dregin eru upp myndbrot af staðnum, fjölskyldu og nágrönnum, af hversdagsleika og hátíðum. Sigrún Björnsdóttir sendi frá sér Veltigrjót, sem er hennar fimmta ljóðabók. Í ljóðunum fléttar hún saman ljóðabálki, sem spratt upp úr fylgiseðlum með lyfjum og eru nokkurs konar særingar, við önnur ljóð og hugleiðingar um steina, lífsháskann, ástina og gleymsku.
Og svo er það guðinn í tölvunni. Í nýjustu skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Deus, er fjallað um sögur fólks úr ekki svo fjarlægri framtíð eða bjöguðum samtíma fléttaðar saman í hugleiðingum um gervigreind, guð og allt.
Við byrjum á viðtali við Emblu Bachmann sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir fyrstu skáldsögu sína Stelpur stranglega bannaðar! Embla, sem er 17 ára, er yngsta manneskjan til að hljóta slíka viðurkenningu. Anna María Björnsdóttir settist niður með Emblu og spurði hana út í þessa vel heppnuðu spútník frumraun.
Viðmælendur: Kristín Arngrímsdóttir, Sigrún Björnsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Embla Bachmann.
Lesendur: Alexander Kristjánsson og Kristján Freyr Halldórsson.
Tónlist: Pista (Fresh) - Los Bitchos, Space Song - Beach House.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson.