Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson er hvað þekktastur fyrir tímatengd verk sem rannsaka manngerðar vélar og tækniminjar. Um liðna helgi opnaði hann sýninguna ?Leiðni leiðir? í Verksmiðjunni á Hjalteyri um liðna helgi, en þar hefur hann umbreytt 2000 fermetra verksmiðjurými í fjölskynjunarverk hreyfingar og hljóðs. Þetta er verk sem leikur með tíma og orku, en Sigurður vinnur út frá miðju hússins lóðrétt upp og niður þrjár hæðir og hugsar sýninguna sem einn stóran skúlptúr samofin byggingunni sjálfri. Síðast þegar við hittum Sigurð hér í Víðsjá var hann á leiðinni til Feneyja til að vera þar fulltrúi Íslands á Tvíæringnum, að þessu sinni er það Gígja Hólmgeirsdóttir sem hittir Sigurð á Hjalteyri í skjóli frá hávaðaroki innan veggja gömlu verksmiðjunnar á Hjalteyri.
Leiksýningin Lónið, eftir Magnús Thorlacius, sem sýnd er um þessar mundir í Tjarnarbíó, tekur fyrir eymd mannlegrar tilveru á tímum síðkapítalískra drauma, eins og segir í leikskrá. Eva Halldóra Guðmundsdóttir rýnir í verkið í þætti dagsins.
Einnig ætlum við að rifja upp, af engu sérstöku tilefni, heimsókn sem Víðsjá átti fyrir fimm árum síðan inn í eitt fegursta hús landsins, Smiðshús á Álftanesi. Tilefni heimsóknarinnar var níræðisafmæli höfundar hússins og ábúanda þess, arkitektsins Manfreðs Vilhjálmssonar. Manfreð er einn af okkar allra bestu arkitektum, hefur hannað þekkt hús og minna þekkt hús, jafnt heimili sem og kirkjur, skóla og bókasöfn. Einnig hefur hann hannað húsgögn, leikföng og innréttingar. Hann hlaut heiðursviðurkenningu Arkitektafélags Íslands 2019. Við heyrum í Manfreð í þætti dagsins.