Geir Sigurðsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Kína, verður gestur okkar í upphafi þáttar. Metfjöldi herþota var notaður við umfangsmikla heræfingu við Taívan í fyrradag sem sagt er að hafi átt að líkja eftir árás á ríkið.
Við höldum áfram að ræða þingrof og komandi kosningar eftir fréttayfirlitið hálf átta. Við ætlum að ræða tónlistarnotkun í kosningabaráttu og frumsamin lög og texta sem flokkarnir hafa notað í gegnum tíðina við Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands og tónlistarsérfræðing.
Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, verður gestur okkar fyrir átta fréttir þegar við ræðum varnarmál hér á landi eftir fundi hans með yfirmönnum hermála Norðurlandanna og formanni bandaríska herráðsins.
Við ræðum friðarverðlaun Nobels, handhafa þeirra í ár og samhengið við Stefán Pálsson sagnfræðing og friðarsinna.
Hafsteinn Einarsson, dósent í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í gervigreind, ræðir við okkur um Teslu Optimus-vélmennin sem Elon Musk kynnti frekar um helgina. Musk segir gervigreindarvélmennið eiga eftir að verða stærsta vara allra tíma, og telur líklegt að þau verði komin inn á heimili innan tveggja ára.
Ummæli Einars Þorsteinssonar um starfsaðstæður kennara á ráðstefnu Sambands sveitarfélaganna hafa vægast sagt farið öfugt ofan í stéttina sem stendur í virkri kjarabaráttu. Við ræðum við Kristínu Björnsdóttur formann Kennarafélags Reykjavíkur.