Í gær kynnti félags- og vinnumarkaðsráðuneytið skýrslu sem OECD vann. Niðurstöðurnar sýna m.a. að aðeins 18% innflytjenda á Íslandi tali íslensku. Íslenskunám þarf að vera aðgengilegt og fólk þarf að hafa efni á því. Lísbet Einarsdóttir framkvæmdastjóri Starfsafls fræðslusjóðs mætti í fyrsta kaffibolla.
Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, var gestur okkar eftir fréttayfirlitið hálf átta. Á dögunum sögðu Japanir Kínverja hafa ógnað öryggi og brotið gegn fullveldisrétti landsins þegar kínversk herflugvél fór í heimildarleysi inn fyrir lofthelgi Japans. Spenna hefur aukist aftur á þessum slóðum og talsverður núningur hefur orðið milli stjórnvalda Kína og Filippseyja.
Það er óneitanlega haustlegt úti og minningar um sól og sumar -hjá þeim sem náðu að finna það einhversstaðar, eflaust farnar að dofna. Mannauðsdeildir á vinnustöðum víða um land standa nú í ströngu við að finna upp leiðir til að peppa starfsfólk inn í veturinn. Við spjölluðum við Adríönu Karólínu Pétursdóttur, formann Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.
Við ræddum nýja vinstrið í Evrópu, sérstaklega Bandalag Söhru Wagenknecth sem er á vinstri væng þýskra stjórnmála, en boðar ýmis stefnumál sem minna á þau sem hægri flokkar halda á lofti. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, kom til okkar.
Dómsmálaráðherra boðaði hertar aðgerðir gegn vopnaburði ungmenna eftir ríkisstjórnarfund í fyrradag og í gær bárust fréttir af því að til stæði að nota málmleitartæki í öryggisgæslu á framhaldsskólaböllum á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig líður framhaldsskólanemum með þetta allt saman? Embla María möller forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema leit við hjá okkur.
Tónlist:
Teitur Magnússon - Vinur vina minna.
Childish Gambino - Redbone.
Spacestation - Hvítt vín.
Pulp - Common people.
Paul Simon - Late in the Evening.
FLOTT - Segðu það bara.