„Ég held oft að stutt líf geti sagt okkur meira um lífið en langt líf,“ segir Laufey Helgadóttir listfræðingur um franska listamanninn Yves Klein, sem lifði hratt og ákaft, lést 34 ára gamall árið 1962. Hann var júdókappi, sjálflærður listamaður, félagi í Rósakrossreglunni, og gjörsamlega dolfallinn yfir bláa litnum. Þótt listferillinn væri aðeins sjö ár liggur eftir hann aragrúi af verkum og skrifum sem komu honum í bækur listasögunnar sem einum áhrifamesta listamanni Frakklands á 20. öld, ásamt Marcel Duchamp.
Hann er þekktastur fyrir bláar einlitamyndir sínar, mónókrómin svokölluðu, en hann þróaði litinn sjálfur og nefnidi International Klein Blue (IKB) og fékk einkaleyfi fyrir. „Það var bindiefni í litnum sem gerði það að verkum að útgeislun þessa bláa litar var akkúrat sú sem hann var að leita að. Hann vildi að áhorfandinn myndi sogast inn í verkið. Að útgeislunin frá verkinu yrði það mikil að það listmagnaði allt umhverfið og áhorfandinn gæti þannig týnt sér í verkinu,“ segir Laufey um bláa IKB-litinn. Blái liturinn var táknrænn fyrir Klein, í litnum fann hann fyrir frelsi. Hann sagði: „Fyrst er ekkert, síðan er alls ekkert, svo kemur djúp blátt.“ Með tímanum færði hann sig frekar inn á svið óefniskennds myndnæmis. Markmiðið var að með tímanum yrði ekki neitt; tóm. Hann seldi til að mynda nokkur óefniskennd verk á ferlinum; sumsé ekkert.
Hann tilheyrði hópi nýraunsæismanna en list hans flæðir inn á svið alls konar stefna og strauma; mínímalisma, landslags, ferlis- og líkamslistar, gjörningalistar, og annarra framúrstefnuhreyfinga sjöunda áratugar síðustu aldar.
Í þætti dagsins skoðum við merkilegt en stutt lífshlaup Yves Kleins sem og listferil hans með áherslu á bláu einlitamyndirnar.
Viðmælandi minn er Laufey Helgadóttir listfræðingur.
Skyndibitinn er Big Mac.