Minnst tíu látnir í skotárás í Örebro, dæmdur fyrir að keyra á dreng sem lést, leikskóli opinn þrátt fyrir verkfall
Minnst tíu eru látnir eftir skotárás á símenntunarmiðstöð í sænsku borginni Örebro í dag. Árásarmaðurinn er einn þeirra.
Bílstjóri steypubíls sýndi af sér stórfellt gáleysi þegar hann keyrði á átta ára dreng sem lést samstundis. Bílstjórinn fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, setti Alþingi í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, er nýr forseti Alþingis.
Leikskóli Snæfellsbæjar verður opinn - með skertri starfsemi á morgun - þrátt fyrir verkfall. Bæjarstjóri segir ófaglærða deildarstjóra og starfsfólk í öðrum stéttarfélögum en Kennarasambandinu ekki í verkfalli. Enginn gangi í störf þeirra sem séu í verkfalli.
Tveir af hverjum þremur Grindvíkingum hafa flutt lögheimili sitt þaðan frá því hann var fyrst rýmdur. Enn eru þó ríflega tólfhundruð manns með lögheimili í bænum.