Ísland sniðgengur Eurovision, ferðafólk til Bandaríkjanna krafið um meiri upplýsingar, líkur á eldgosi og endalok Fjölskylduhjálpar
Ísland tekur ekki þátt í Eurovision í Vín í vor. Framkvæmdastjórn kynnti stjórn RÚV þessa ákvörðun á stjórnarfundi í dag. Óvíst er hvort Söngvakeppni sjónvarps verður haldin.
Ferðamenn á leið til Bandaríkjanna gætu þurft að sýna allt sem þeir hafa gert á samfélagsmiðlum undanfarin fimm ár, ef áform heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna verða að veruleika. Íslenskir ferðamenn yrðu ekki undanskildir.
Enn eru líkur á eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Kvikusöfnun hefur verið stöðug síðustu vikur.
Síðasta jólaúthlutun Fjölskylduhjálpar á höfuðborgarsvæðinu er í næstu viku og verður starfsemin lögð niður um áramót. Matarúthlutunum verður þó haldið áfram í Reykjanesbæ út mars á næsta ári. Formaður segir stöðuna hryllilega.