12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 18.desember 2024
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Úttekt á rekstri FH er áfellisdómur og skellur fyrir íþróttastarfsemina í Hafnarfirði, segir formaður frjálsíþróttadeildar FH. Formanni aðalstjórnar félagsins sé ekki lengur sætt. Hann fékk rúmlega sjötíu milljónir króna fyrir að stýra byggingu knatthúss FH-inga.

Flest bendir til þess að formaður Samfylkingarinnar verði næsti forsætisráðherra. Vel gengur að sögn að skrifa stjórnarsáttmála Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins og fundir formanna halda áfram eftir hádegi.

Hófleg bjartsýni ríkir um viðræður um vopnahlé á Gaza. Jákvæður tónn var í tilkynningu frá Hamas í gær um að mögulegt yrði að ná samningum ef Ísraelar hætti að setja sífellt ný skilyrði.

Framkvæmdastjóri Þróttar segir að félagið hafi fullan afnotarétt yfir íþróttasvæðinu í Laugardal og því hafi ákvörðun Reykjavíkurborgar í gær um að byggja þar safnskóla komið flatt upp á menn. Borgin segir að Þróttur og Ármann hafi afnot af svæðinu að minnsta kosti næstu sex ár.

Talsverðar skemmdir urðu hjá fyrirtæki á Akureyri þegar eldur kviknaði í iðnaðarhúsi í gærkvöld. Góðar eldvarnir forðuðu tjóni hjá öðrum fyrirtækjum sem þar eru til húsa.

Símanúmeraþjófar hafa herjað á landsmenn undanfarna mánuði. Óprúttnir aðilar hringja að því er virðist úr íslenskum númerum sem eru skráð á allt aðra en hringja.

Formaður KSÍ segir það ekki hafa áhrif á leit að nýjum landsliðsþjálfara að Freyr Alexandersson hafi verið rekinn frá belgíska félaginu Kortrijk. Freyr hefur verið orðaður við stöðuna.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,