07:03
Morgunvaktin
Útgjöld forsetaframbjóðenda, Volkswagen í vandræðum og kappræður Trump og Harris
Morgunvaktin

Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.

Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.

Þátturinn hófst á spjalli í síma við Ólöfu Ýri Atladóttur, framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Sóta á Tröllaskaga. Illviðri var spáð en svo virðist sem lægðin hafði misst einhvern mátt áður en áhrifa hennar tók að gæta að ráði. "Skítaveður" var orðið sem Ólöf notaði en jörð var auð.

Þórður Snær Júlíusson blaðamaður fór yfir nýbirt hálfsársuppgjör nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Athygli vekur að afgangur er af rekstri Reykjavíkur í fyrsta sinn í nokkur ár. Þá fór hann yfir kostnað nokkurra frambjóðenda til embættis forseta en þeim ber að skila yfirliti til Ríkisendurskoðunar. Katrín Jakobsdóttir eyddi langmestu í baráttuna en Helga Þórisdóttir eyddi mestu ef miðað er við atkvæðafjölda.

Í Berlínarspjalli sagði Arthur Björgvin Bollason frá erfiðleikum í rekstri Volkswagen. Það er stærsta fyrirtæki Þýskalands og afkoma þess þykir jafnan endurspegla stöðu þýsks efnahags. Hann sagði líka frá kynningu og sýningu á verkum íslenskra listamanna í Berlín og í lokin var örlítið rætt um epli.

Kappræður bandarísku forsetaframbjóðendanna Kamölu Harris og Donalds Trump fara fram í dag. Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir stjórnendaráðgjafi hefur lengi fylgist vel með stjórnmálunum vestan hafs. Hún rýndi í stöðuna og ræddi mikilvægi kappræðna fyrir frambjóðendurna.

Tónlist:

Till the morning comes - Steinar Albrigtsen,

Apfelwein Lied - Bembel Beat,

Stars - Sigurður Flosason.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,