Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi.
Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.
Bíóaðsókn fór fram úr björtustu vonum í sumar þegar fólk víða um heim flykktist í kvikmyndahús til að sjá bæði Barbie, sem við heyrðum í áðan og svo myndina um ævi og uppfinningar Oppenheimers, föður kjarnorkusprengjunnar. Myndin hverfist um eðlisfræðinginn J. Robert Oppenheimer, sem fór fyrir Manhattan-verkefni Bandaríkjastjórnar. Myndinni verður ekki spillt þó að hér sé sagt, að ætlunarverkið tókst ? kjarnorkusprengjan leit dagsins ljós. Og við erum ekki að skemma fyrir neinum þó rakinn sé sá hryllingur sem beið íbúa Hiroshima og Nagasaki, skömmu síðar. Það er vegna þess, að það er alls ekkert rakið í myndinni. Sennilega er það ástæðan fyrir því að stórmyndin Oppenheimer hefur ekki enn verið frumsýnd í Japan og verður það mögulega aldrei. Japanar eru margir óánægðir með hve lítið myndin fjallar um þær hörmungar sem Bandaríkjamenn ollu með kjarnorkuvopnum sínum. Það fór líka fyrir brjóstið á þeim þegar Oppenheimer var auglýst samhliða Barbie, þá af miklum gáska og húmor. Frásagnir eftirlifenda frá Hiroshima og Nagasaki, þeirra einu sem þekkja áhrif kjarnavopna á eigin skinni, eru enda ekkert til að hlæja að eins og við heyrum í þessari umfjöllun Odds Þórðarsonar.
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu kláraðist síðastliðinn sunnudag þegar Spánverjar unnu Englendinga. Þær spænsku tóku við keflinu af bandaríska liðinu sem vann mótið í síðustu tvö skipti þar á undan. Þótt bandaríska liðið hafi ekki riðið eins feitum hesti frá þessu heimsmeistaramóti var athyglin, eðli málsins samkvæmt, á þeim framan af móti, bæði vegna gengis á síðustu tveimur heimsmeistaramótum og vegna þess að þeirra skærasta stjarna undanfarin ár, Megan Rapinoe, boðaði fyrir mótið að það yrði hennar síðasta. Birta kynnti sér afrek og arfleifð Megan Rapinoe.
Umsjónarmenn Heimskviða eru Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.