11:03
Mannlegi þátturinn
Kvíði og félagsfælni, Geirmundur og Jón Ólafsson úr Grunnavík
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins.

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Helga Arnardóttir

Eymundur Lúter Eymundsson var hjá okkur í þættinum í dag. Hann glímdi við mikinn kvíða og félagsfælni frá því í barnaskóla. Kvíðinn hafði áhrif á allt í hans lífi, honum gekk illa í náminu, hann einangraði sig, reiddist sjálfum sér fyrir að líða illa og þorði ekki að segja neinum frá því hvernig honum leið. Hann hætti í framhaldsskóla eftir tvo mánuði, notaði áfengi til að slá á líðanina og þegar hann lagðist til svefns á kvöldin kveið hann fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum. Kveið fyrir því að þurfa hitta annað fólk. Eymundi líður betur í dag, líf hans tók loksins aðra stefnu þegar hann var að nálgast fertugt og hann sagði okkur sína sögu í þættinum.

Geirmundur Valtýsson hljómlistarmaður heldur tónleika á laugardaginn og þeir eru óvenjulegir á þann hátt að hljómsveitin spilar einungis lögin og það fellur í hlut áhorfenda að syngja lögin. Geirmundur sagði okkur frá þessu í dag.

Hver var Jón Ólafsson úr Grunnavík og hvað var hann að gera í Kaupmannahöfn á átjándu öld? Félag um átjándu aldar fræði heldur málþing á laugardaginn og meðal annars mun Guðrún Ása Grímsdóttir flytja erindi um fræðastörf Jóns Ólafssonar frá Grunnavík. Þar segir hún frá uppruna hans, erindi hans til Kaupmannahafnar haustið 1726 og stöðu hans og kjörum þar i borg nær ævilangt. Guðrún sagði okkur frá Jóni í þættinum í dag.

Tónlist í þættinum í dag

Átján rauðar rósir / Lúdó og Stefán (Bobby Darin, Iðunn Steinsdóttir)

Lover / Peggy Lee (Richard Rodgers og Lorenz Hart)

Nú er ég léttur / Geirmundur Valtýsson (Geirmundur Valtýsson)

Rósin/Sigfús Pétursson og Álftagerðisbræður (Friðrik Jónsson og Guðmundur Halldórsson) Sigurður Rúnar Jónsson útsetti og Stefán R Gíslason raddsetti

UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,