12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 22. mars 2023
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í tólfta sinn í röð í morgun, úr 6,5 prósentum í 7,5. Eftir því sem verðbólgan varir lengur, verður erfiðara að ná henni niður, að mati Seðlabankastjóra. Forseti ASÍ segir stýrivaxtahækkunina mikil vonbrigði, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir erfitt að sjá að Seðlabankinn hafi átt annarra kosta völ.

Seyðfirðingar eru innlyksa annan daginn í röð vegna ófærðar á Fjarðarheiði. Yfir 500 farþegar Norrænu sitja fastir í bænum og missa af öllum skoðunarferðum. Bræðslan gæti orðið olíulaus nema takist að koma olíu yfir heiðina fyrir kvöldið.

Búist er við ákvörðun í dag um hvort Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti verður ákærður fyrir leynilegar greiðslur til klámmyndastjörnu.

Lögregla fer fram á fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem hleypti af skoti á skemmtistaðnum Dubliner í síðustu viku. Lögregla telur manninn hættulegan og fer fram á varðhaldið á grundvelli almannahagsmuna.

Bronsstytta eftir Einar Jóns­son seldist á ríflega ellefu milljónir í gær. Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir verk á uppboði hér á landi.

Valur mátti þola sjö marka tap í fyrri leik sínum gegn þýska liðinu Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handbolta. Seinni leikur liðanna fer fram ytra í næstu viku.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,