07:03
Morgunútvarpið
16. Desember - Óður til Breiðholts, Súðavíkurskýrslan, nostalgía o.fl.

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.

Jólaölsskortur plagar Nostalgíu, íslenska barinn á Tenerife. Þar eiga þau hins vegar ráð undir rifi hverju og bjóða nú ískaldan kokteil í skiptum fyrir einn líter af jólaöli. Morgunútvarpið heyrði í Herdísi Hrönn Árnadóttur og kannaði viðtökurnar ásamt því að forvitnast um hvernig jólahátíðin leggst í eyjaskeggja en eins og alltaf eru fjölmargir Íslendingar nú á leiðinni á eyjuna fögru til að halda upp á hátíð ljóss og friðar í sól og blíðu.

Óður til æskunnar og óður til Breiðholts -Það eru orð sem hafa verið látin falla um myndlistarsýningu systranna Sóleyjar Þorvaldsdóttur og Tinnu Þorvalds -Önnudóttur. Við fengum að heyra meira.

Niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um snjóflóðið í Súðavík í janúar 1995 voru kynntar í gær. Fjórtán fórust í flóðinu, þar af átta börn. Lengi hefur verið kallað eftir því að viðbrögð og aðdragandi verði rannsakaður. Maya Hrafnhildardóttir sem missti foreldra sína í flóðinu og Sigríður Rannveig Jónsdóttir sem missti ungt barn sitt komu til okkar.

Instagram hefur afhjúpað nýjan eiginleika sem á að gera notendum kleift að stilla eigið algrím. Þannig ættu notendur að geta ráðið hvers konar færslur þeir sjá, eitthvað sem hefur hingað til verið sjálfvirkt en þó byggt á því sem fólk sýnir áhuga hverju sinni. Með þessu vill Instagram að einhverju leyti setja valdið í hendur notenda sem eiga að geta stýrt betur hvaða efni þeir sjá á miðlinum. Við fengum Tryggva Frey Elínarson í heimsókn til að útskýra betur hvað breytingin felur í sér.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 52 mín.
,