18:10
Spegillinn
Búið að vinna hættumat fyrir alla íbúabyggð, makríll og leiðtogafundur ESB

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Efnismikil skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um snjóflóðið í Súðavík fyrir þrjátíu árum leit dagsins ljós í gær; hún varpar meðal annars ljósi á hvernig sveitarfélög á þessum tíma voru mörg hver vanbúin til að verjast stórhættulegum ofanflóðum.

Það var til að mynda vitað að á tíu stöðum, þar sem snjóflóðahætta var viðvarandi, var aðeins á einum stað þar sem eftirlit var fullnægjandi; Ísafirði. Hættumöt sem voru gerð gátu oft og tíðum orðið að pólitísku þrætuepli og fámennustu sveitarfélögin höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til að reisa varnarmannvirki. En hvernig er staðan í dag?

Sögulegt segir á vef utanríkisráðuneytisins um samkomulag sem Ísland, Noregur, Bretland og Færeyjar hafa gert um skiptingu og stjórn á veiðum á makríl. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir tvennt við það að athuga að segja samkomulagið sögulegt. Áður hafi verið gert hlutasamkomulag þótt Ísland eigi nú í fyrsta sinn þátt í slíku. Í annan stað þá hafi það verið viðurkennt frá 2010 að Ísland sé strandríki í makríl og það tekið þátt í viðræðum um hvernig beri að skipta þessum deilistofni.

Einn afdrifaríkasti leiðtogafundur Evrópusambandsins í langan tíma hefst á fimmtudaginn, þar sem tekin verður ákvörðun um fjárhagslegan stuðning við Úkraínu næstu árin. Enn er verið að semja um skilyrði þess að nýta frysta fjármuni rússneska seðlabankans til að setja saman risastórt lán - og það er nánast útilokað að öll aðildarríki bandalagsins samþykki þennan ráðahag.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 20 mín.
,