16:05
Síðdegisútvarpið
Gleðigjafi eða fýlupúki, frá Hollywood til heilunar og álag á heilsugæslunni
Síðdegisútvarpið

Það getur reynst fólki erfitt að fá tíma hjá heimilislækni á sinni heilsugæslu og bara almennt erfitt að fá tíma hjá lækni. En hvert á fólk að snúa sér vilji það hitta lækni þegar ekki er um bráðatilfelli að ræða. Sigríður Dóra Magnúsdóttir forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var á línunni.

Nýsköpunarverðlaun Íslands 2024 voru í dag veitt nýsköpunarfyrirtækinu Carbfix sem þróað hefur og markaðssett tækni til að binda koldíoxíð og brennisteinsvetni varanlega í bergi. Kári Helgason forstöðumaður rannsóknar og nýsköpunar hjá Carbfix kom í Síðdegisútvarpið.

Jóhanna Jónas naut lengi velgengni sem leikkona en skipti svo alveg um pól og starfar nú sem eftirsóttur orkuheilari og kennari. Í nýrri bók Frá Hollywood til heilunar er saga Jóhönnu sögð en þar koma við sögu erfiðar áskoranir. Jóhanna kom til okkar í þáttinn í dag.

Menningarverðlaun Norðurlandaráðs 2024 eru á dagskrá RÚV í kvöld en Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumálum, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýsköpun á sviði umhverfismála. Rúnar Freyr Gíslason verkefnastjóri Sjónvarps kom til okkar.

Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki er spurning sem Ragnhildur Vigfúsdóttir markþjálfi leggur upp með í fyrirlestri sínum sem hún heldur í fyrirtækjum og stofnunum. Þetta gerir hún í þeim tilgangi að safna peningum fyrir Göngum saman sem er styrktarsjóður fyrir grunnrannsóknir krabbameina. Ragnhildur kom til okkar og sagði okkur allt um erindið og hvers vegna hún ákvað að leggja þessu góða málefni lið.

Sveitarfélög á Vesturlandi vilja bæta úr læknaskorti með því að bjóða upp á aðlaðandi aðstæður fyrir lækna með fjölskyldur. Þau skora á stjórnvöld að fara í átak í uppbyggingu húsnæðis og tækjabúnaðar. Við hringdum í Pál Brynjarsson framkvæmdastjóraSamtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Er aðgengilegt til 22. október 2025.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,