06:50
Morgunútvarpið
11. maí - eiturefni, Malaví, frjósemi og kisur
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Rannsóknir umhverfisstofnunar á Kópavogslæknum hafa leitt í ljós töluvert magn efna sem talin eru skaðleg lífríkinu. Alls er að finna átján efni í læknum sem eru á svökolluðum vaktlista Evrópusambandsins en öll þessi efni og efnasambönd hafa verið skilgreind sem hættuleg og þrávirk og valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatni og umhverfi þess. Kristín Sævarsdóttir, áheyrnafulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs hefur reynt að vekja athygli á málinu en segir meirihlutann hafa skellt skollaeyrum yfir því.

Sigurður Þráinn Geirsson og Jóhann Bragi Fjalldal, sem búsettir eru í Malaví, hafa undanfarið unnið að því að koma malavísku knattspyrnuliði á knattspyrnumótið Rey Cup í Reykjavík í sumar. Þeir voru á línunni hjá okkur og sögðu frá strákunum í Ascent Soccer akademíunni og stöðunni í Malaví.

Ármann Jakobsson íslenskuprófessor og rithöfundur kíkti til okkar í spjall rétt fyrir átta með nýja bók í farteskinu.

Diljá Pét­urs­dótt­ir, full­trúi Íslands í Eurovision, stígur á svið í kvöld í seinni undankeppni söngv­akeppn­inn­ar en Ísland gæti komist áfram í úrslitakeppnina ef marka má könnun sem birt var seint í gær eftir rennslið í gærkvöldi. Siggi Gunnars, okkar besti maður, er eins og við vitum í Liverpool, og var á línunni hjá okkur eftir átta fréttir.

Íslenskir foreldrar hafa aldrei eignast færri börn en nú og ljóst að Íslendingar eru ekki lengur að viðhalda sér. Þróunin hefur einungis verið niður á við undanfarna áratugi. En eru Íslendingar að þurrkast út og hvað segir hagfræðin um málið? Við ræddum frjósemi við Eirík Ragnarsson hagfræðing.

Fjölmörg mál koma inn á borð Húseigendafélagsins þegar kemur að dýrahaldi og samþykki annarra eigenda vegna þess - og nú á dögunum birtist frétt um ágreining í fjölbýli vegna hunds sem þar dvelur eftir að systir íbúðareiganda lést. Þrír stigagangar eru í húsinu og sameiginlegur kjallari. Samþykki hefur fengist hjá þeim sem deila stigagangi með hundinum en ekki þeim sem deila sameiginlegum inngangi í kjallara hússins. Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu, kom til okkar í lok þáttar og ræðir þær reglur sem gilda um hunda- og kattahald í fjölbýlishúsum.

Var aðgengilegt til 10. maí 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,