06:50
Morgunútvarpið
21. apríl - Konur í tækni, varnarmál, QR-kóðar og tónlist
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Verðlaunin Nordic Women in Tech Awards verða haldin hér á landi í haust en verðlaununum er meðal annars ætlað að auka hluta kvenna í tæknigeiranum. Þóra Óskarsdóttir og Ólöf Kristjánsdóttir komu til okkar og segja okkur betur frá verðlaununum.

Friðrik Jónsson varnarmálasérfræðingur kom til okkar til að ræða veru rússneskra kafbáta hjá norrænum innviðum, íslenskum sæstrengjum og svo framvegis.

Í síðustu viku vakti það athygli að íslendingar á Facebook voru að deila í gríð og erg gjafaleik þar sem gefins var Toyota Hilux jeppi, glænýr en að vísu rispaður. Það virðist vera alveg sama hversu mikið talað er um að láta ekki glepjast af svona gylliboðum vegna hættu á að þetta sé einhverskonar svindl þá eru merkilega margir sem gera það. Við fengum Hjört Árnason til okkar, sem rekur tækniþjónustuna H Árnason sem sérhæfi sig í tæknivörnum. Við ætlum að beina sjónum okkar að öðrum hættum, sem er notkun á svokölluðum QR kóðum en þeir eru t.d. algeng sjón á veitingahúsum, til að auðvelda viðskiptavinum að panta af matseðlum veitingahússins og á auglýsingaskiltum, að því virðist góðkynja kóðar en geta valdið alvarlegri ógn við öryggi farsíma okkar.

Fréttir vikunnar voru á sínum stað með góðum gestum. Erla Hlynsdóttir blaðamaður á Heimildinni og Snorri Másson fréttamaður á Stöð 2 komu til okkar.

Í gær, Sumardaginn fyrsta, kom út lagið Lífið er núna. Það eru vinir Njalla, Njáls Þórðarsonar, sem koma að laginu en Njalli féll frá fyrir um fimm árum eftir baráttu við krabbamein. Njalli var meðlimur í Landi og sonum og Vinum vors & blóma á sínum tíma og nú hafa þeir ásamt Sóldögg, sem hann spilaði líka með, gefið út lag til þess að minnast vinars síns og til þess að minna á minningatónleika sem haldnir verða þann 20 maí nk til styrktar stuðningsfélaginu Krafti. Allir þrír forsöngvarar hljómsveitanna syngja lagið ásamt dóttur Njalla, henni Kötlu Njáls, sem sló svo eftirminnilega í gegn í Söngvakeppninni fyrir rúmu ári. Þeir Gunnar Þór Eggertsson og Siggeir Pétursson komu til okkar í lok þáttar.

Var aðgengilegt til 20. apríl 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,