16:05
Síðdegisútvarpið
28.nóvember
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Rithöfundurinn Guðrún Jónína Magnúsdóttir sendi á dögunum frá sér bókina Álfadalur, sem fjallar um kynferðisofbeldi, þöggun og afleiðingar þess. Þar greinir hún meðal annars frá grófu ofbeldi afa síns og segir hann hafa beitt dóttur sína kynferðisofbeldi með þeim afleiðingum að móðir Guðrúnar hafi tvisvar orðið ófrísk eftir föður sinn. Guðrún er stödd fyrir norðan að kynna bókina en hún ætlar að vera á línunni að segja frá sögunni og mikilvægi þess að atburðir sem þessir líti dagsins ljós.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna verða haldin hér á landi í Hörpu, 10. desember næstkomandi og verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Mikill heiður fylgir því að fá að halda hátíðina en annað hvert ár er hún haldin í Berlín en þess á milli í öðrum evrópskum borgum. Þetta er fyrsti svokallaði A-lista viðburðurinn sem haldinn hefur verið hér á landi.

Það má í raun segja að hátíðin hafi byrjað núna í byrjun nóvember en mánuðurinn er tileinkaður evrópskri kvikmyndagerð og tilnefndar kvikmyndir verða sýndar í Bíó Paradís.

Á morgun verður frumsýnd í Bíó Paradís myndin Rimini. Myndin er um Riche Bravo sem er útbrunninn poppstjarna frá áttunda áratugnum sem kemur fram á þunglyndislegum skemmtunum á ferðamannastaðnum Rimini. Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdarstjóri bíósins og Herbert Guðmundsson poppstjarna mæta til okkar á eftir.

Misjafnar eru jólahefðir landans, á meðan sumir kjósa bakstur, föndur og alþrif vilja aðrir helst njóta aðventunnar í rólegheitunum með freyðibaði, kampavín og jólatónlist. Síðarnefndi hópurinn ætti að fá eitthvað fyrir sinn snúð í Tjarnarbíói á laugardag þegar jólakabarettinn Freyðijól býður upp á skemmtun með söng, tónlist og bröndurum. Gunnella Hólmarsdóttir, leik- og söngkona og Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari kíkja til okkar og segja okkur frá bubblandi jólaballi.

Karlakórinn Fóstbræður er í heimsókn í Austurríki hvar kórinn heldur tvenna tónleika. Hrafnhildur slóst með í för og spjallaði við fararstjórann og fóstbróðirinn Arinbjörn Vilhjálmsson er kórinn var á leið til Oberndorf á staðinn sem jólasálmurinn Heims um ból var saminn

Þeir félagar í Baggalúti eru vanir því að nota frumlegar aðferðir til að skreyta sviðið fyrir jólatónleika sína í Háskólabíói, eins og fólk sem á þá tónleika hefur mætt hefur eflaust tekið eftir. Það vakti athygli um daginn þegar Baggalútur kom fyrir söfnunargámum fyrir utan Háskólabíó þar sem þeir óskuðu eftir rusli. Síðdegisútvarpið leit við í stórri skemmu á Gufunesi þar sem Baggalútur hefur komið sér fyrir ásamt öllu sínu rusli, þar var rætt við Guðmund Pálsson.

í

Var aðgengilegt til 28. nóvember 2023.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,