06:50
Morgunútvarpið
28. nóv - kokkar, kjaramál og Kínverjar
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Íslenska kokkalandsliðið okkar etur nú kappi á heimsmeistaramótinu í matreiðslu í Lúxemborg og gerði sér lítið fyrir um helgina og byrjaði mótið með gullverðlaun í vasanum fyrir þriggja rétta matseðil. Við slógum á þráðinn til Þóris Erlingssonar forseta Klúbbs Matreiðslumanna.

Það geisa miklir gróðureldar í Noregi um þessar mundir og ógna byggð. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta sé ekki óvenjulegur tími fyrir gróðurelda svona okkar megin á jarðkringlunni og ræddum við slökkvistjórann í Borgarbyggð Bjarna Kristinn Þorsteinsson sem þekkir gróðurelda betur en flestir.

Við ræddum við Stefán Ólafsson, prófessor emiritus í félagsfræði og efnahagsráðgjafa Eflingar, um gang kjaraviðræðna og stýrivaxtahækkanir. Hann segir óvenju mikið svigrúm til launahækkana og að rétt sé að skora á Seðlabankann að draga til baka hluta af stýrivaxtahækkuninni til að greiða fyrir gerð kjarasamninga, viðeigandi sé að fara með sýtivextina niður á svipað ról og nú er í grannríkjum okkar.

Kínverjar hafa síðustu daga mótmælt ströngum reglum stjórnvalda um útgöngubann vegna kórónuveirunnar og aðgerðirnar hafa sums staðar snúist upp í mótmæli gegn Kínaforseta og Kommúnistaflokknum. Við ræddum við Guðbjörgu Ríkey Thoroddsen Hauksdóttur, stjórnmálafræðing, doktorsnema og sérfræðing í málefnum Kína, um þessi tímamót í landinu.

Maður verður var við miklar áhyggjur af unga fólkinu þessa dagana og málefni þeirra hafa verið mikið í fréttum í allt haust. Foreldrafélag grunnskóla Seltjarnarness er ósátt við stöðu æskulýðs- og forvarnastarfs í bænum en lögregla leysti upp samkvæmi sextán og sautján ára ungmenna í bænum um helgina. Renata Sigurbergsdóttir stjórnarkona í foreldrafélagi grunnskóla Seltjarnarness ræddi við okkur um stöðuna í bænum eins og hún blasir við foreldrum þar.

Já og sportið var á sínum stað í lok þáttar þegar Gunnar Birgisson settist hjá okkur, glóðvolgur að vanda.

Var aðgengilegt til 28. nóvember 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,