12:42
Þetta helst
Gengjastríðið í miðborg Reykjavíkur
Þetta helst

Daglegur fréttaskýringaþáttur þar sem stór og lítil fréttamál eru matreidd á einfaldan hátt.

Það var rétt fyrir miðnætti, á fimmtudagskvöldinu 17. nóvember, sem stór hópur svartklæddra manna réðst inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club í miðborg Reykjavíkur. Mennirnir voru vopnaðir, með grímur fyrir vitum sér, og voru að leita að ákveðnum einstaklingum til að ganga í skrokk á þeim. Þeir stungu þrjá, enga lífshættulega þó, og flúðu svo af hólmi. Og þá fór heldur betur dramatísk atburðarrás af stað í samfélaginu. Árásin náðist á öryggismyndavélar, efninu var reyndar síðar í vikunni lekið til fjölmiðla, líklega af lögreglunni, og er það litið mjög alvarlegum augum. Það var kveikt í mótorhjólum, molotovkokteilum kastað á fjölbýlishús og reyksprengjum inn á skemmtistaði, ungabörnum var hótað lífláti. Lögreglan hefur handtekið um þrjátíu manns í tengslum við rannsóknina, en sleppt flestum, þó að margir hafi líka verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Fangelsin eru orðin yfirfull og lögreglan keyrir um miðborgina með blá ljós til að vera sýnileg. Einkaskilaboð um yfirvofandi hefndaraðgerðir í miðbænum sem áttu að gerast nú um helgina gengu á milli fólks á samfélagsmiðlum, dómsmálaráðherra boðaði stríð gegn skipulagðri glæpastarfsemi og veitingahúsaeigendur óttuðust að fólk mundi bara ekki þora að koma í bæinn. Vísir.is var með beina útsendingu úr miðbænum fyrir áhugasama. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið nánast í daglegum viðtölum síðan árásin varð og það sem er nú orðið ljóst er að þetta voru átök á milli tveggja hópa, eins konar gengjastríð. Sendiráð Bandaríkjanna, Bretlands og Kanada sendu öll út viðvaranir til landa sinna um að fara varlega í miðborginni, forðast þéttsetna staði og tilkynna grunsamlegar mannaferðir. Sunna Valgerðardóttir fer í þætti dagsins yfir þessa sérstöku atburðarrás liðinnar viku sem hófst opinberlega með einhvers konar gengjaátökum á Bankastræti club, fimmtudagskvöldið 17. nóvember, þó að aðdragandinn hafi vissulega verið lengri.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 15 mín.
,