06:50
Morgunútvarpið
18. des. - Stjörnustríð, jólabjór, gleði og sorg, fangar og tækni
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Nú eru bara nokkrar klukkustundir þar til íslenskir aðdáendur Stjörnustríðs fá að berja nýjustu myndina augum. Star Wars heimurinn er risavaxinn, ekki bara hvað óravíddir geimsins varðar, heldur líka þegar kemur að peningum. Björn Berg Gunnarsson hjá Íslandsbanka veit ýmislegt um fjármál Star Wars og hann kíkti til okkar og sagði okkur meira.

Hlaðvörp eru vinsæl um þessar mundir og fjalla um allt milli himins og jarðar, m.a. bjór. Nú er tími jólabjórsins og þeir félagar Stefán Pálsson og Höskuldur Sæmundsson hjá Bruggvarpinu sem eru miklir bjórspekúlantar koma til okkar og ræddu þetta áhugamál sitt.

Jólabækurnar eru af ýmsum toga í flóðinu mikla sem nú kætir bókelska. Höfundar koma úr ýmsum áttum og eru mis mikið þekktir og sumir að þreyta sína frumraun. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir er ein þeirra og hún gerði sér lítið fyrir og ritaði tvær bækur sem koma út saman, enda nokkurs konar systrabækur. Þar fjallar hún um gleði og sorg og veitir góð ráð til að efla gleði og takast á við erfiða tíma. Petrína Mjöll var gestur okkar.

Mikilvægt er að fylgja refsiföngum eftir strax og dómur fellur. Sálfræðiþjónusta, félagsráðgjöf og fíkniráðgjöf eigi að standa þeim til boða strax frá uppkvaðningu dóms. Það þýðir á meðan beðið er afplánunnar, á meðan hún stendur yfir og eftir að henni lýkur. Þetta er meðal tillagna starfshóps félagsmálaráðuneytisins sem myndlistamaðurinn Tolli Morthens leiðir. Hann ræddi málið við okkur og sagði mikilvægt að nálgast efnið af kærleika og virðingu.

Tæknihornið var á sínum stað og þar var Guðmundur Jóhannsson tæknitröll m.a. á jólalegum nótum.

Tónlist:

Pálmi Gunnarsson - Litla húsið.

Baggalútur - Jólajólasveinn.

Elvis Presley - Silver Bells.

Valdimar og fjölskyldan - Ég þarf enga jólagjöf í ár.

Sycamore Tree - Fire.

Robbie Williams - Time for change.

Possibillies - Móðurást.

Var aðgengilegt til 17. desember 2020.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,