16:05
Síðdegisútvarpið
18. desember
Síðdegisútvarpið

Nú stendur til að fara í aðgerðir til að hvetja fólk úr öðrum starfsstéttum, sem er þegar með háskólagráðu, til að venda kvæði sínu í kross og hefja hjúkrunarnám sem er samþjappað og tekið á styttri tíma en ella til að sporna við viðvarandi manneklu. Slík leið hefst haustið 2020 og undirbúningsnám fyrir það strax eftir áramót. Herdís Sveinsdóttir, forseti hjúkrunardeildar kemur og segir okkur betur frá þessu.

Heitasti dagur Ástralíu frá því mælingar hófust var í gær. Meðalhiti á landinu náði 40,9 stigum, 0,6 stigum meira en fyrra met frá árinu 2013. Mældur var hæsti hiti á hverri veðurstöð í landinu. Hiti fór víða yfir 45 stig í miðju landinu í gær, og í byrjun vikunnar var hitinn í Perth, höfuðborg Vestur Ástralíu, 40 stig þrjá daga í röð. Það hefur aldrei áður gerst í desember. Andreas Lúðvíksson býr í Sydney, við heyrum í honum.

Talandi um veður. Margir eru eflaust að velta fyrir sér hvernig veðrið verður næstu daga á Íslandi, jólaveðrið. Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, kíkir til okkar og svarar öllum okkar veðurvangaveltum.

Við heyrum í Guðmundi Gunnarssyni bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ og fáum að heyra hvernig jólaundirbúningurinn gengur þar á bæ.

Helga Margrét tekur jólapúlsinn á borgarbúum og fræðist um það hvernig jólamat fólk ætlar að snæða í ár.

Eins og við höfum nefnt áður þá vantar ekki framboðið af skemmtunum í desember en ekki er verra þegar skemmtunin snýst um að styrkja gott málefni. Í kvöld verður haldið Jólabingó til styrktar Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík, Jólabingó Jóhanns Alfreðs og Valda Píanó nánar tiltekið en þeir hafa haldið það sleitulaust síðustu 5 ár.

Var aðgengilegt til 17. desember 2020.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,