16:05
Síðdegisútvarpið
15. janúar
Síðdegisútvarpið

Skíðaþyrst fólk hefur þurft að bíða nokkuð þennan veturinn eftir nógu miklum snjó til þess að komast á skíði í grennd við höfuðborgarsvæðið. Við fengum þó fréttir af því að einhver skíðsvæði borgarinnar hafi opnað í dag, í fyrsta sinn í vetur. Við sláum á þráðinn til Einars Bjarnasonar, rekstrarstjóra skíðasvæðisins í Bláfjöllum og tökum stöðuna þar.

Í kvöld greiðir breska þingið atkvæði um samning ríkisstjórnar Theresu May vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. May hefur gengið illa að sannfæra þingmenn um að samþykkja samninginn og óvíst hver staðan verður 29. mars næstkomandi þegar Brexit gengur formlega í gegn. Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður ætlar að segja okkur betur frá þessu á eftir.

Við ætlum líka að forvitnast um litla hátíð sem er kölluð Vetrarsól á Ströndum. Kristín Lárusdóttir er potturinn og pannan í þeirri hátíð. Hún verður á línunni.

Hljómsveitin Eva sér um tónlistina í leikritinu Insomnia sem leikhópurinn Stertabenda hefur sett á svið undanfarnar vikur í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Hljómsveitarmeðlimir eru tveir, það eru þær Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir. Þær kíkja til okkar nú þegar sýningum fer að ljúka.

Íslendingar áttu stórleik á HM í gær þegar þeir unnu Barein 36-18, framundan eru tveir leikir í þessari viku, það er Japan á morgun og Makedónía á fimmtudaginn. Við sláum á þráðinn til Þýskalands þar sem Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður fylgist náið með málum og ætlar að fara yfir stöðuna. Við ætlum líka að heyra í Kjartani Vídó Ólafssyni, markaðs og fjölmiðlafulltrúa HSÍ.

Var aðgengilegt til 15. janúar 2020.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,