12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 15. Janúar 2019
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Forseti Alþingis fundar í hádeginu með formönnum allra þingflokka þar sem meðal annars verður farið yfir framhald Klausturmálsins. Formlega er það ekki komið til siðanefndar vegna vanhæfis forsætisnefndar en reynt er að finna því farveg.

Breskir þingmenn greiða í dag atkvæði um Brexit-samning ríkisstjórnar Theresu May. Búist er við að hann verði felldur. Danir hafa miklar áhyggjur af útflutningi til Bretlands ef Bretar fara úr Evrópusambandinu án samnings.

Húsnæðisskuldir heimilanna halda áfram að aukast. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hlutfallslega meira en íbúðaverð á liðnu ári.

Aðalkrafa BHM í komandi kjaraviðræðum er að menntun verði metin til launa. Þá er þess einnig krafist að vinnuvikan verði stytt. Formaður BHM segir að samningar á almenna markaðnum hafi áhrif á það hversu hárra launa verður krafist.

Djúpavogshreppur hefur aflétt banni á efnistöku vegna vegalagningar yfir Berufjarðarbotn. Vegagerðin hefur beðist afsökunar á að hafa tekið meira en leyft var og vonar að hægt verði að opna nýja veginn í sumar

Íslenska karlalandsliðið fær í frí á heimsmeistaramóti karla í handbolta í dag. Tíminn verður notaður til að undirbúa liðið fyrir leikinn gegn Japan á morgun.

Veðurhorfur: Hvöss norðaustanátt um landið norðvestanvert, annars talsvert hægari vindur. Snjókoma eða él, einkum norðanlands, frost að sjö stigum. Víða norðaustan tíu til átján síðdegis og léttir til sunnan heiða. Minnkandi norðanátt og él á morgun, en léttskýjað á suður- og vesturlandi. Frost að tíu stigum.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 20 mín.
,