06:50
Morgunvaktin
Horft framhjá konum í sjávarútvegi
Morgunvaktin

Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.

Liðin eru 90 ár í dag frá fæðingu eins áhrifamesta mannréttindafrömuðar síðari tíma og ógleymanlegs ræðusnillings. Martin Luther King fæddist 15. janúar 1929. Við rifjuðum upp og fluttum brot úr frægustu ræðu hans, I have a dream, og fluttum dálítinn blús, sem saminn var í tilefni morðsins á King 1968. - Íslenskur sjávarútvegur er mikið karlavígi. Forstjórar sjávarútvegsfyrirtækjanna eru jafnan karlar og stjórnarmennirnir líka. Á því er þó einstaka undantekning; nokkrar konur sitja í stjórnum útgerðarfélaga. En hvernig ætli þeim líði í störfum sínum innan um alla karlana og hver er upplifun þeirra af greininni? Guðfinna Pétursdóttir rannsakaði málið í lokaverkefni í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún, og leiðbeinandi hennar, Ásta Dís Óladóttir lektor, komu á Morgunvaktina hálf átta, og ræddu um konur í stjórnum sjávarútvegsfyrirtækja. - Stefan Löfven, formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins, hefur frest fram yfir hádegi á morgun til að tryggja stuðning þvert á meginlínur sænskra stjórnmála við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Atkvæði verða þá greidd í þinginu á föstudag. Í gær voru fjórir mánuðir liðnir frá þingkosningum en allar tilraunir til myndunar nýrrar ríkisstjórnar hafa farið út um þúfur. Nú síðast treysti Vinstriflokkurinn sér ekki til að styðja eða veita hlutleysi samstarfssamning Jafnaðarmanna, Græningja, Miðflokksins og Frjálslyndra. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö, fór yfir stöðuna í Svíþjóð að loknum 8-fréttum. - Sú var tíð að pukrast var með andlega sjúkdóma. Fólk talaði ekki um geðræn veikindi, hvorki sín né vina og vandamanna. Þetta hefur breyst, sem betur fer, fólk er opnara og viðurkennir sjúkdóma fyrir sjálfu sér og öðrum. Nýverið kom út bókin Riddarar hringavitleysunnar en í henni fjallar Ágúst Kristján Steinarrsson um eigin geðhvörf og lýsir baráttu sinni við veikindin. Ágúst Kristján sagði frá reynslu sinni. - Tónlist: Otis Spann - Blues for Martin Luther King; ABBA - Take a chance on me; Ágúst Kristján Steinarrsson - Ég er hér.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,