16:05
Bara bækur
Himintungl yfir heimsins ystu brún og Innanríkið - Alexíus
Bara bækur

Þáttur um bókmenntir, bæði hér heima og úti í heimi. Hlustendum er fylgt í gegnum lestur athyglisverðra bókmenntaverka og rætt við höfunda, útgefendur og fræðimenn um stefnur, strauma, tákn og tilvísanir.

Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

„Sjáum við ekki allt í brotum þegar við lítum aftur?“ segir Pétur, presturinn og sögumaðurinn í nýjustu skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar Himintungl yfir heimsins ystu brún. Það slær rétta tóninn fyrir þátt vikunnar þar sem tíminn, minnið, og sagan er í forgrunni. Skálsaga Jóns Kalmans gerist í upphafi 17. aldar, eftir siðaskipti, fyrir vísindabyltingu og á Íslandi gerist atburður á Vestfjörðum sem þjóðin horfðist lengi vel ekki í augu við. Baskavígin eru firnastór svartur blettur á sögu Íslendinga, þegar tugir baskneskra hvalveiðimanna voru myrtir með köldu blóði. Bók Jóns Kalman fjallar einum þræði um þessa atburði en líka svo margt annað - þetta er saga um sjálft ritmálið og skrásetningu, sannleikann og lygina, átök, grimmd en líka ást og von.

Nýjasta bók Braga Ólafssonar er sjálfsævisöguleg, einum þræði minningarbók, öðrum hugleiðingar, safn útúrdúra, nokkuð nærri fyrirbæri sem kallast auto-theory eða sjálfskenning. Faðir Braga vaknar eina nótt við að ókunnugur maður stendur í svefnherbergisdyrunum á heimili hans við Skólavörðustíg. Aldarfjórðungi síðar rifjar sonurinn upp þessa reynslu förðurins og styðst við heimildir sem óvænt tengdust atvikinu. Samhliða því fer hann á stefnulaust flakk um fortíð og nútíð frá miðbæ Rvk upp á Mýrar og út í heim með viðkomu í hugarheimi annarra höfunda.

Viðmælendur: Jón Kalman Stefánsson og Bragi Ólafsson.

Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,