15:03
Bara bækur
Ró í beinum og Paradísarmissir Miltons
Bara bækur

Þáttur um bókmenntir, bæði hér heima og úti í heimi. Hlustendum er fylgt í gegnum lestur athyglisverðra bókmenntaverka og rætt við höfunda, útgefendur og fræðimenn um stefnur, strauma, tákn og tilvísanir.

Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

Guð er að finna víða í bókmenntunum og leitina að guði. Einhverjir hafa fundið guð og halda sér fast í faðminn - aðrir hafa glatað honum af ótal ólíkum ástæðum. Guð bókmenntanna er margvíslegur og fer það alveg eftir því hvar maður drepur niður fæti - hvort það þyki almennt fínt að yrkja um guð. Og þá hvaða guð, eða guði? Guð í einhverri mynd verður einn af lyklum okkar að efni þáttarins í dag. Við ætlum að dýfa okkur í höfundarverk íslensks skálds sem við heyrðum í hér áðan tala um hvernig það er að yrkja um guð, í viðtali árið 2011... Ísak Harðarson komst í snertingu við guð á sínum ferli og fann ljóðræna, róttæka leið til þess að tjá sig um þetta tilvistarlega og trúarlega ferðalag á guðs vegum. Ísak Harðarson var afkastamikið og fjölhæft skáld, skáld íróníu og glettni en kljáðist líka við stóru spurningarnar í leit íhugull innávið. Nýtt ljóðasafn eftir Ísak leit dagsins ljós nýlega og við flettum í því. Svo hverfum við líka rúm 350 ár aftur í tímann og höldum til Englands þar sem John Milton, skáldið blinda orti söguljóðið Paradísarmissi, lykilverk enskra bókmennta, ljóð sem ort var á miklum tímamótum og markaði líka tímamót. Ljóðið var fyrst þýtt á íslensku af Jóni Þorlákssyni á Bægisá en splunkuný þýðing kom til jarðar fyrir skemmstu eftir Jón Erlendsson. Paradísarmissir fjallar um stóru sögu kristninnar, söguna sem enn er verið að segja, af syndafallinu, freistingum og breyskleika, englum og djöflum, upphafinu og endinum.

Viðmælendur: Þórður Sævar Jónsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Ástráður Eysteinsson og Jón Erlendsson.

Umsjón: Jóhannes Ólafsson

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
e
Endurflutt.
,