15:00
Undrunin, hún lýsir upp myrkrið...
Undrunin, hún lýsir upp myrkrið...

Ísak Harðarson sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók árið 1982, Þriggja orða nafn, og varð þar með hluti af upphafi nýrrar bylgju í íslenskri ljóðlist á tímum þar sem framtíðarhugsjónir voru torfundnar og ung skáld tekin að líta nokkuð um öxl eftir fyrirmyndum og áhrifavöldum. Ísak markaði sér strax afgerandi sérstöðu með einlægum hugsjónum sínum um betri heim og var tekið opnum örmum af stórum hópi nýrra ljóðaunnenda sem leituðu svara og spurninga í þeirri alvöru og viðkvæmni sem einkennir svo sterkt ljóð Ísaks. Í næstu ljóðabók sinni Ræflatestamentið (1984) er tónn ljóðanna orðinn kaldhæðnari en heldur þó einlægninni. Illskan er til staðar í heiminum og gegn henni verður að berjast með öllum ráðum og Ísak leitar í trúna, hann grandskoðar Biblíuna og í næstu bókum verður ljóðrænt samtal hans æ áleitnara í spurninni um Guð, tilvist hans og áhrif í tilvist okkar mannanna. Ísak hefur gefið út níu ljóðabækur, eina skáldsögu, eitt smásagnasafn og játningabókina Þú sem ert á himnum ... þú ert hér sem og barnabókina Söngur Guðsfuglsins sem Ísak vann í samvinnu við Helga Þorgils Friðjónsson myndlistarmann.

Rætt er við Ísak um skáldskap hans, frelsun og vinnubrögð. Inn í frásögnina er fléttað ljóðum Ísaks í hans eigin flutningi. Lesari: Hjalti Rögnvaldsson. Umsjón: Jórunn Sigurðardóttir.

(Áður á dagskrá 2011)

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 44 mín.
,