16:05
Síðdegisútvarpið
2.janúar
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Landinn settist niður eins og alltaf á gamlárskvöld og horfði á Áramótaskaupið. En hvað fannst hlustendum okkar um skaupið í ár ? Við opnum fyrir símann á eftir og vonumst til að heyra í ykkur og fá að heyra ykkar skoðun.

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins verður á línunni hjá okkur í þættinum en hann gagnrýnir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í orkumálum en orkuskortur blasir við að hans mati ef ekkert verður að gert. Hann segir forsætisráðherra enn og einu sinni reyna að tefja málið með tali um að móta orkustefnu til framtíðar. Þá segir Jón að hann beri ekkert traust til ríkisstjórnarinnar. Við tölum við Jón á eftir.

Ekki er útlit fyrir að hægt verði að aflétta rýmingu í Seyðisfirði í dag, en ekki er talið að til frekari rýmingar komi. Flóð hafa fallið í öðrum fjörðum eystra, en þó ekki í byggð. Við ætlum að hringja austur og heyra í Hildi Þórisdóttur íbúa á Seyðisfirði og sveitastjórnarfulltrúa í Múlaþingi og spyrja hana út í stöðuna í bænum og hvernig bæjarbúar hafi það við þessar aðstæður.

Síðar í vikunni nánar tiltekið á fimmtudaginn verður aðgengileg á Sjónvarpi Símans ný leikin íslensk þáttaröð sem nefnist Kennarastofan. Hugmyndasmiður þáttanna Jón Gunnar Geirdal kemur til okkar á eftir ásamt Valdimar Víðissyni skólastjóra og verðandi bæjarstjóra í Hafnarfirði en serían er að stórum hluta byggð á hans karakter. Við fræðumst meira um þetta hér á eftir þegar þeir Jón og Valdimar kíkja í heimsókn.

Á dögunum birti Ragga Nagli mynd af morgunrútínu barnlauss áhrifavalds og með myndinni ráðlagði hún fólki að stinga eyrantöppum í eyrun og hlaupa eins hratt og það gæti næst þegar að barnlaus kornungur einkaþjálfari með sveigjanlegan vinnutíma segði því að tileinka þér heilsusamlegri morgunrútínu. Flest fólk sé nú yfir höfuð bara að reyna að lifa morguninn af og ætti því ekki að vera of gagnrýnið á sjálft sig. Við ætlum að slá á þráðinn til Röggu á eftir, svona í upphafi árs og heyra í henni hljóðið, en þetta er sá árstími sem fólk á til að setja sér háleit markmið fyrir nýja árið, jafnvel svo háleit að erfitt er að standa við þau.

En við byrjum á þessu: Flughálka er víða um land og það sama á við hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem erfitt er fyrir gangandi vegfarendur að komast leiða sinna. Hjalti J Guðmundsson stjórnandi reksturs og umhirðu borgarlandsins er á línunni hjá okkur.

Var aðgengilegt til 01. janúar 2025.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,