06:50
Morgunútvarpið
18. jan - Handbolti, íslenska krónan og Haggis
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Voga í gær. Þar óskaði nefndin eftir frekari gögnum frá Landsnet og bað Skipulagsstofnun að endurskoða samþykkt umhverfismat. Deilt hefur verið um Suðurnesjalínu 2 í talsverðan tíma, og eftir að allt rafmagn fór að Suðurnesjum um tveggja tíma skeið í fyrradag vegna bilunar í Suðurnesjalínu 1, einu tengingu Suðurnesja við flutningskerfi Landsnets, hefur þrýstingurinn aukist enn frekar á Voga sem vilja að línan verði lögð í jörð, Landsnet telur það óraunhæft og dýrt. Við ræddum við Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets, í upphafi þáttar.

Ísland mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik í milliriðli á HM í handbolta í dag. Við heyrðum í Einari Erni Jónssyni, íþróttafréttamanni, sem er staddur í Gautaborg.

Það urðu ótrúlegar vendingar í breskum stjórnmálum í fyrradag þegar breska þingið beitti í fyrsta sinn í sögunni neitunarvaldi til að stöðva skoska þingið í fyrirhugaðri lagasetningu. Það sem er enn ótrúlegra er að neitunarvaldinu var beitt gegn frumvarpi um kynrænt sjálfræði, ekki ósvipuðu því sem Alþingi Íslendinga samþykkti á síðasta kjörtímabili. Málefni transfólks hafa sannarlega verið mjög öfugsnúin i breskri umræðu um langt skeið og valdamikið enskt fólk beitt sér mjög gegn auknum mannréttindum fólksins. Engin þekkir þessa stöðu þó líklega betur en Ugla Stefanía Kristjönudóttir aktivisti og áhrifakona sem var á línunni frá Bretlandi.

Málefni íslensku krónunnar hafa heldur betur verið fyrirferðamikil á nýju ári enda virðist hægt ætla að réttast úr kútnum hjá henni með tilheyrandi kostnaði fyrir íslensku þjóðina. Við ræddum veika krónu við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra upp úr klukkan átta

Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu hafa verið með allra versta móti frá áramótum og oftsinnis farið yfir heilsuverndarmörk. Ragnhildur Finnbjörnsdóttir sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun kom til okkar til að fara yfir þetta risastóra lýðheilsumál

Morgunblaðið greindi frá því í gær að veisluhöldum Íslenska Edinborgarfélagsins, sem fram fara í janúar ár hvert til að fagna afmælisdegi skoska skáldsins Roberts Burns, hafi verið aflýst sökum þess að ekki tókst að tryggja skoska þjóðarréttinn Haggis til að bera þar á borð. Við ræddum við Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem er einn af meðlimum Edinborgarfélagsins, í lok þáttar.

Var aðgengilegt til 18. janúar 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,