16:05
Víðsjá
Skýjadans, Messías, Saknaðarilmur og pólskar og íslenskar rætur
Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Mótettukórinn og Listvinafélagið í Reykjavík fagna saman 40 ára afmæli í ár og af því tilefni er efnt til glæsilegra hátíðartónleika í Eldborg, Hörpu, næstkomandi sunnudag, þar sem kórinn flytur óratóríuna Messías eftir Georg Friedrich Händel, ásamt Alþjóðlegu barokksveitin í Reykjavík og fjórum framúrskarandi einsöngvurum. Víðsjá fær til sín góða gesti í tilefni stórafmælisins, þau Hörð Áskellsson, stjórnanda Mótettukórsins, Ingu Rósu Ingólfsdóttur, framkvæmdastjóra Listvinafélagsins og Ragnheiði Þórdísi Gylfadóttur, formann stjórnar Mótettukórsins.

Gréta Sigríður Einarsdóttir rýnir í Saknaðarilm, nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur.

Að leggjast í grasið og búa til myndir úr skýjunum er eitthvað sem sennilega hvert mannsbarn á jarðkringlunni hefur gert. En getur þessi ljóðræna athöfn verið einungis saklaus og hrein á tímum mannaldar? Það er spurning sem danshöfundurinn Andrea Gunnlaugsdóttir tekst á við í dansverkinu Cumulus. Reykjavík Dance festival hófst í gær og stendur fram á sunnudag, og Cumulus er eitt þeirra fjölmörgu verka sem sýnd verða á hátíðinni. Höfundurinn verður gestur okkar í dag, segir okkur frá verkinu og danssenunni í Vínarborg þar sem hún býr og starfar.

"Ég skil ekki tungumálið sem þú talar, en þegar við höfum sungið saman í tvo klukkutíma þá get ég fundið og skilið sameiginlegar tilfinningar okkar. Í gegnum tónlistina getum við skilið hvert annað betur". Þetta segir stjórnandi Szeczecin Vocal Project, sem er sönghópur frá Póllandi. Þessa dagana stendur yfir fyrsti hluti tveggja ára tónlistarsamstarfs hópsins og tveggja hópa frá Íslandi, Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Dúó Funa. Tilgangur samtstarfsins er að kanna þjóðlega tónlistarhefð hvors lands fyrir sig og þá samtímatónlist sem sprottin er úr þeim þjóðlega jarðvegi. Við fáum þau Bára Grímsdóttur, formann Iðunnar, og Pawel Osuchowski, stjórnanda Szeczecin Vocal Project, til okkar hér í síðari hluta þáttar.

Umsjónarkonur: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 55 mín.
,