Íslenska mannflóran er þáttaröð um fjölmenningu í íslensku samfélagi í umsjón Chanel Bjarkar Sturludóttur. Í fyrstu þáttaröðinni af Íslensku mannflórunni veitti hún hlustendum innsýn í hugarheim blandaða Íslendinga. Í þessum framhaldsþáttum mun Chanel kanna og svara djúpstæðum spurningum um fjölmenningu í íslensku samfélagi og mun ræða við ýmsa íslendinga; bæði litaða, hvíta og aðflutta um upplifanir þeirra af fjölmenningunni hér á landi.
Umsjón: Chanel Björk Sturludóttir.
Í kjölfar Black lives matter hreyfingarinnar hefur verið mikið rætt um rasisma í samfélaginu á Íslandi og annars staðar. En sú umræða hefur að mestu leyti beinst að kynþætti, en það má segja að á Íslandi sé einnig að finna annars konar fordóma sem beinast gegn uppruna og þjóðerni, sem er útlendingaandúð. Í þessum þætti skoðar Chanel Björk Sturludóttir hugtakið útlendingaandúð og ræðir við stjórnmálafræðingin Ólaf Þ Harðarsson um sögu þess innan stefna íslenskra stjórnvalda. Einnig er rætt við Semu Erlu Serdar um stöðu flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi og aðkomu Útlendingastofnunar í þeim málum. Wiola Ujazdowska gefur að lokum innsýn inn í reynsluheim pólskra innflytjenda hér á landi, sem hún lýsir sem ljúfsárri upplifun.