Hljóðvegur 1 er á síðdegisvaktinni í sumar.
Umsjón: Steiney Skúladóttir, Jóhann Alfreð Kristinsson, Kristján Freyr Halldórsson og Valdís Eiríksdóttir.
Barnahátíðin Kátt á Klambratúni var stofnuð 2016 og haldin þar árlega til ársins 2019, snýr nú aftur eftir hlé og hefur fundið sér nýjan og jafnframt góðan stað á Víðistaðatúni í Hafnarfirði. Á Kátt á Víðistaðatúni verður börnum á öllum aldri og fólkinu þeirra boðið upp á veglega hátíð þar sem barnamenningu er gert hátt undir höfði, á svæði sem hannað er út frá þörfum barna með það í huga að börn fái frelsi til að leika sér út frá eigin forsendum. Þær Anna Kristín og Hafdís Arnardætur kíktu við og sögðu okkur betur frá þessari fallegu barnahátíð.
Margir af fremstu gamanleikurum þjóðarinnar úr leikhópi Þjóðleikhússins fengu fyrir nokkrum mánuðum síðan frjálsar hendur til að skapa gleðisýningu sem frumsýnd verður í haust og úr varð að sýningin fjallar að eingöngu um þjóðaríþrótta okkar Íslendinga að Elta veðrið. Sýningin Eltum veðrið er gleðileikur fullur af nýrri tónlist eftir Sváfni Sigurðarson sem kom til okkar, ásamt Hallgrími Ólafssyni einum leikara sýningarinnar, með glænýtt lag í pokahorninu er kallast Söngur lúsmýsins.
Einn af föstum liðum Hljóðvegarins í sumar er Ísbíltúrinn. Í dag hittum við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra og fyrrum forsetaframbjóðanda í Skalla í Árbænum og gæddum okkur á ís með karamelludýfu og Nóa kroppi.
Hljómsveitin Skoffín hefur vakið talsverða athygli síðustu ár fyrir mjög svo hressandi og melódískt hávaðarokk hvar textarnir, sem eru á íslensku, eru fullir af kvíðvænlegum játningum og myndrænni fegurð hversdagsleikans. Skoffín gaf út bráðfínt lag á dögunum er kallast “Í útvarpinu” og framhaldinu kynntu mögulega lokatónleika sína á Nasa í Reykjavík annað kvöld. Þetta þótti okkur hér á Hljóðvegi 1 tíðindi og fengum við því Jóhannes Bjarkason forsprakka Skoffíns til okkar svo við gætum spurt hann spjörunum úr.
Tónlistarhátíðin Mannfólkið breytist í slím er nú haldin í sjöunda sinn á Akureyri. Markmið hátíðarinnar er að auka sýnileika norðlensks tónlistarfólks og að skapa sterka hefð fyrir öflugri menningarhátíð utan meginstrauma á Akureyri. Þannig er fjölbreytileiki atriða aðalsmerki Mannfólkið breytist í slím þar sem allt áhugafólk um tónlist getur fundið eitthvað við hæfi. Einnig er lögð áhersla á atriði með líflega sviðsframkomu og þau sem starfa mitt á milli tónlistar og gjörningalistar. Jón Haukur skipuleggjandi var á línunni hjá okkur á eftir.