16:05
Síðdegisútvarpið
26.september
Síðdegisútvarpið

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að hingað til lands komu norskir kafarar sem rekköfuðu um helstu laxveiðiár landsins. Þeir voru vopnaðir skutulbyssum og samkvæmt nýjustu tölum náðu þeir 31 eldislaxi þann tíma sem þeir voru hér. Von er á nýjum hópi kafara til að halda hreinsun ánna áfram. Við ætlum að ræða við Gunnar Örn Petersen í dag en hann er framkvæmdastjóri landsambands veiðifélaga og spyrja hann út í þennan árangur, og fá hann til að rýna aðeins inn í framtíðina með okkur þ.e. hvernig menn þar á bæ sjá framvinduna næstu misserin.

Um 400 sprengisérfræðingar frá 15 löndum eru staddir á landinu við æfingar. Land­helg­is­gæsla Íslands stend­ur fyr­ir hinni ár­legu Nort­hern Chal­lenge sem er fjölþjóðleg æf­ing sprengju­sér­fræðinga. Æfingarnar fara að mestu leyti fram inn­an ör­ygg­is­svæðis­ins á Kefla­vík­ur­flug­velli en einnig í Helgu­vík og í Hval­f­irði. Ásgeir Guðjónsson sprengisérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni talar við okkur á eftir af miðri æfingu.

Sóley Dröfn Davíðsdóttir yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina skrifaði grein á visir.is í gær með yfirskriftinni Mikilvægi lyfjameðferðar við ADHD. Þar skorar hún á stjórnvöld að greiða aðgengi þeirra sem sannarlega glíma við ADHD að meðferð við vandanum því skert aðgengi þessa hóps sé alvarlegt mál. Sóley kemur til okkar á eftir og fer betur yfir þessi mál.

Í sumar hófust framkvæmdir á hinum víðfrægu kirkjutröppum á Akureyri og áætluð verklok voru sögð núna í október. En það er ljóst að það muni ekki standast. En hvenær verður þá aftur hægt að ganga upp kirkjutröppurnar fyrir norðan? Gígja Hólmgeirsdóttir ætlar að kynna sér stöðuna á framkvæmdunum og segja okkur allt um málið.

Höfundar Áramótaskaupsins 2023 verða þau Benedikt Valsson, Fannar Sveinsson, Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Vala Kristín Eiríksdóttir og Þorsteinn Guðmundsson. Benedikt og Fannar hafa unnið vel og lengi saman eða síðan þeir voru tvítugir. Nýlega stofnuðu þeir framleiðslufyrirtækið Pera Production sem sér um skaupið í ár. Þeir koma til okkar í kaffi á eftir.

Stelpurnar okkar mæta Þýskalandi í Þjóðardeild kvenna í fótbolta. Leikurinn fer fram í Bochum í Þýskalandi eftir örfáar mínútur. Okkar kona í sportinu, Helga Margrét Höskuldsdóttir er á línunni.

Er aðgengilegt til 25. september 2024.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,