16:05
Síðdegisútvarpið
12.janúar
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að ástandið í heilbrigðismálum hefur verið alvarlegt síðustu misseri og virðist vera að ná einhverjum hápunkti þessa dagana. Blessuð börnin hafa ekki sloppið við veikindi frekar en þeir fullorðnu og staðan hefur verið grafalvarleg á Barnaspítalanum þar sem alls kyns sýkingar hafa verið að grassera. En hvers vegna er staðan svona slæm núna og hvernig getum við reynt að sporna við að börnin okkar veikist alvarlega? Valtýr Stefánsson Thors er sérfræðingur í barna - og smitsjúkdómalækningum og hann verður á línunni

Sigurður Valur Sveinsson eða Siggi Sveins kemur til okkar því nú magnast spennan fyrir fyrsta leikinn á HM sem er gegn Portúgal bara eftir þrjá og hálfan tíma.

Siggi spilaði eins og kunnugt er með landsliðinu í fjölda ára og samkvæmt wikipediu er hann 5. markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. En hvernig leggst mótið í Sigga og hvernig líður honum svona rétt fyrir fyrsta leik? Við fáum að vita það allt saman í þættinum í dag.

Atli Fannar Bjarkason verður á sínum stað með MEME vikunnar sem að þessu sinni tengist kjaramálum.

Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður verður líka á sínum stað og nú fáum við stemninguna beint í æð af áhorfendapöllunum í Svíþjóð. Það styttist í leikinn sem verður sýndur í beinni á RÚV og auðvitað verður honum lýst beint hér á Rás 2.

En hvað ætlum við að snarla með leiknum í kvöld ? Tobba Marinós gefur fólki á hlaupum góð ráð, margir á leið heim úr vinnu, einhverjir búnir að gera ráðstafanir en aðrir ekki og því gott að heyra í Tobbu og fá hugmyndir.

Yfir þorrann, þá býður Geðhjálp upp á dagleg hollráð til þess að bæta geðheilsu. Hollráðin eru köllum G vítamín.

Í ár býður Geðhjálp auk þess upp á sérstaka G vítamín dropa sem eru notaðir samhliða daglegri geðrækt. Með dropunum fylgja leiðbeiningar um notkun ásamt QR-kóða sem beinir notandanum á G vítamín dagsins. Grímur Atlason er framkvæmdastjóri Geðhjálpar hann er hingað kominn

Var aðgengilegt til 12. janúar 2024.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,