06:50
Morgunútvarpið
4. jan - Efling, lest og handbolti
Morgunútvarpið

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar í Reykjavík, hefur sagt að lokun Reykjanesbrautar vegna ófærðar ýti undir skoðun á fluglest milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar. Þá sagði Runólfur Ágústsson, sem ritstýrði skýrslu frá 2014 þar sem lagt var mat á hagkvæmni slíkrar hraðlestar, að hægt væri að samnýta neðanjarðargöng fyrir fluglest og borgarlínu. Við ræddum þessar lestarhugmyndir við Pálma Frey Randversson, framkvæmdastjóra Kadeco, en Kadeco vinnur nú þróunaráætlun svæðisins við Keflavíkurflugvöll fyrir hönd íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar.

Greint var frá því í vikunni að leik­menn á Heimsmeistaramótinu í handbolta verði skimaðir reglu­lega fyrir Covid-19 á mótinu auk þess sem þeir munu þurfa að sæta fimm daga sóttkví greinist þeir já­kvæðir. Ís­lenska lands­liðið lenti fremur illa á Evrópumótinu fyrir ári þar sem margir leik­menn smituðust af veirunni, þar á meðal markvörðurinn Björg­vin Páll sem þurfti að sætta sig við langan tíma í ein­angrun á sjálfu mótinu áður en hann gat snúið aftur til leiks. Hann vakti athygli á málinu á samfélagsmiðlum í gær og hvatti unnendur handboltans til þess að reyna að stöðva þessi áform Alþjóðahandknattleikssambandsins. Við fengum til okkar Guðmund B. Ólafsson formann HSÍ til að fara yfir þeirra hugsanlegu viðbrögð, stöðu HSÍ og mótið framundan.

Í gær var greint frá kaupum Mýflugs á tveimur þriðju hluta í flugafélaginu Erni. Hörður Guðmundsson, eigandi Ernis, segir að með sölunni sé verið að styrkja félögin til lengri tíma. Við fengum Hörð til okkar til að segja okkur frá þessari sölu á fyrirtæki sem hann stofnaði 1970 á Ísafirði, rekstrarumhverfi flugfélaga þessi árin og til að líta yfir farin veg á þessum tímamótum sem og framtíðina í flugrekstri.

Samninganefnd Eflingar fundar með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var gestur okkar í lok þáttar.

Var aðgengilegt til 04. janúar 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,