16:05
Síðdegisútvarpið
4.október
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Það líður varla sú vika að við heyrum ekki af því að verið sé að opna nýjan veitingastað í Reykjavík. Raunar er það svo að veitingahúsaflóran hefur aldrei verið fjölbreyttari. Á sama tíma er vandamálið oftar en ekki að það vantar starfsfólk og sérstaklega starfsfólk með reynlu og þekkingu.

Margrét Reynisdóttir hefur rekið starfsþróunarfyrirtækið Gerum betur ehf. frá árinu 2002, haldið námskeið, veitt ráðgjöf í þessum málum og hún kemur til okkar og segir okkur frá hversu miklu máli það skiptir að hafa starfsfólkið þrautþjálfað.

Er nauðsynlegt að taka stöðumat þegar komið er yfir fertugt ? Á þeim tímamótum ættu flestir að vera sestir vel í sjálfum sér og ættu flestir einnig að þekkja orðið styrkleika sína ágætlega. Er fólk fast í viðjum vanans eða er þetta rétti tímapunkturinn til að breyta. Þessu og miklu fleiru velta þær Árelía Eydís Guðmundsdóttir doktor og borgarfulltrúi og Herdís Pála Pálsdóttir stjórnendaráðgjafi fyrir sér á örnámskeiði sem hefur yfirskriftina Ferillinn eftir fertugt. Herdís Pála kemur til okkar á eftir og ræðir þessar vangaveltur við okkur.

Fyrr í dag fórum við í heimsókn í fatasöfnun Rauða krossins í Skútuvogi en þar er fatnaður flokkaður frá morgni til kvölds alla daga vikunnar. Guðrbjörg Rut Pálmadóttir leiddi okkur í gegnum flokkunina og sagði okkur frá ferlinu frá þeirri stundu er við komum og setjum poka í söfnunargáma frá Rauða krossinum.

Kveikur er á dagskrá sjónvarps í kvöld og Í seinni hluta þáttarins veita Brynja Þorgeirsdóttir og Arnar Þórisson okkur sérstaka innsýn í líf Haraldar Þorleifssonar, milljarðamæringsins sem er helst frægur fyrir að borga alla þá skatta sem hann mögulega getur og standa fyrir byggingu hjólastólarampa um allt land. Brynja kemur til okkar á eftir og segir okkur aðeins frá þessum merkilega manni.

Við hringjum til London en þar býr og starfar ung kona Ásdís Rós, leikkona og dansari að mennt. Stuttmyndin hennar Minn kæri vinur líkami var sýnd á Shorts On Tap kvikmyndahátíðinni á föstudaginn auk þess sem myndin var sýnd á Lady kvikmyndagerðarmannahátíðinni í Beverly Hills um síðustu helgi. En hver er Ásdís Rós og hvernig fæddist hugmyndin að Minn kæri vinur líkami, við komumst að því á eftir.

Í dag birtist grein á Vísi skrifuð af Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur markaðsstjóra Háskólaseturs Vestfjarða. Í greininni lýsir hún aðbúnaði móður sinnar sem er bæði öldruð og heilabiluð og dvelur á hjúkrunarheimili. Lýsingarnar eru sláandi. Ingibjörg Rósa er á línunni.

Var aðgengilegt til 04. október 2023.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,