16:05
Víðsjá
Jæja á Kjarvalstöðum, textílgerð fyrri alda, haustið
Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Elsa E. Guðjónsson, textíl- og búningafræðingur, helgaði meiri hluta starfsævi sinnar því að rannsaka hinn forna íslenska refilsaum. Refilsaumuðu klæðin eru dæmi um þróaða listsköpun fyrri alda á Íslandi en ritheimildir greina frá því að umtalsverður fjöldi textíla prýddi kirkjur og híbýli á fyrri öldum. Öll eru verkin í dag varðveitt á söfnum og hluti þeirra á erlendum söfnum. Elsa féll frá árið 2010, en var þá að vinna í bók sem kemur út á vegum Þjóðminjasafnsins á næstunni. Lilja Árnadóttir, aðstoðaði Elsu með rannsóknina seinustu æviár hennar og hún verður gestur okkar hér á eftir.

Haustið er tími breytinga, allt fer á stjá og heldur á rás, ætlar þú að taka þér far með vagninum eða færðu yfir höfuð að fara með? Skáldið og pistlahöfundurinn Örn Elvar Arnarsson flytur okkur hugvekju um haustið í þætti dagsins.

Á laugardag opnaði yfirlitssýning um listferil Guðjóns Ketilssonar á Kjarvalsstöðum. Sýningin, sem hefur yfirskriftina Jæja, er fimmta sýningin í sérstakri sýningaröð Listasafns Reykjavíkur sem ætlað er að varpa ljósi á list eins íslensk listamanns á hápunkti ferils síns. Guðjón Ketilsson hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur sérstaklega lagt rækt við skúlptúr en teikning leikur einnig stórt hlutverk í listsköpun hans. Í verkum Guðjóns er handverk áberandi, enda eru verk hans kunn fyrir listfengi, hugvitsemi og alúð. Manneskjan er þar fyrir miðju, líkaminn og framlenging hans í gegnum föt og verkfæri, sem og híbýli og annað í hennar nánasta umhverfi. Víðsjá hitti Guðjón á Kjarvalsstöðum.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 55 mín.
,