06:50
Morgunútvarpið
4. okt - netsvindl, bankahagnaður, Siggi Sigurjóns
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Sextán þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að breyta kosningalögunum til að jafna atkvæðavægi landsmanna. Við breytinguna myndi þingmönnum norðausturkjördæmis fækka um þrjá og norðvesturkjördæmis um tvo. Við hringdum vestur í Jón Pál Hreinsson bæjarstjóra Bolungarvíkur og heyra hvernig honum líst á þessi áform þingmannanna.

Stór hluti þeirra einstaklinga sem orðið hefur fyrir tjóni vegna netsvindls á undanförnum fimm árum er eldri en 60 ára. Morgunblaðið greindi til að mynda frá því í gær að fjórir eldri borgarar á Íslandi hafi tapað yfir 60 milljónum króna í svikamyllum af þessu tagi - og að hæsta upphæðin nemi tæpum 90 milljónum. Við ræddum við Dýrleifu Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra Félags eldri borgara og Brynju Maríu Ólafsdóttur, sérfræðing í regluvörslu hjá Landsbankanum, til að ræða netsvindl og hvernig eigi að varast þau.

Íslensku bankarnir hafa hagnast um 114 milljarða króna á undanförnum 12 mánuðum vegna svokallaðs vaxtamuns - þ.e. vextir bankanna eru hærri en þeir þurfa sjálfir að greiða. Þetta kemur fram í úttekt Stundarinnar á vaxtaprósentu bankanna og hagnaðarkröfu þeirra. Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands hefur lagst yfir hagnað bankanna og var gestur okkar.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var gestur okkar eftir átta fréttir. Það var nóg um að ræða: Kvikmyndagerð og niðurskurður til kvikmyndasjóðs, efnahagssamdráttur og möguleg kreppa í Evrópu, kjaraviðræður og staða bankana.

Á laugardag hefjast nýir þættir á RÚV um Sigurð Sigurjónsson, Sigga Sigurjóns, leikara sem öll þjóðin þekkir og kann vel að meta - en ríflega fjörutíu ár eru síðan hann hóf að leika fyrir þjóðina á fjölum leikhúsanna, á hvíta tjaldinu og að sjálfsögðu á sjónvarpsskjánum. Siggi kom til okkar ásamt aðstandendum þáttarins, þeim Birni Emilssyni og Guðmundi Pálssyni.

Annan hvern þriðjudag ræðum við við Sævar Helga Bragason um heim vísindanna - og á því var engin undantekning í dag.

Var aðgengilegt til 04. október 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,