22:10
Mannlegi þátturinn
Hæglætishreyfingin, póstkort frá Magnúsi og Jónatan um Öddu Örnólfs
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson

„Stöðug pressa um að gera allt hraðar hefur þau áhrif að við flýtum okkur í gegnum lífið í stað þess að lifa því í raun og veru. Ef þú gírar þig niður, stígur á bremsuna, nærðu yfirsýn og allt raðast á sinn stað. Þú tengir betur, skapar meira, einbeitir þér betur og afkastar meiru. Þú einfaldlega lifir meira og betur.“ þetta eru orð Carls Honoré, en Hæglætishreyfingin á Íslandi fær hann á næstunni til landsins til að flytja fyrirlestur um hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar. Þóra Jónsdóttir, formaður hreyfingarinnar á Íslandi kom til okkar og sagði okkur meira frá hreyfingunni og þessum fyrirlestri Carl Honoré.

Jónatan Garðarsson kom svo til okkar í dag og hélt áfram að fræða okkur um sögu íslensks tónlistarfólks. Í þetta sinn fræddi hann okkur um Öddu Örnólfs, en hún söng inn á fjölmargar plötur á sjötta áratugnum, til dæmis lagið um Bellu símamær sem hefur fyrir löngu orðið sígilt. Hún fæddist árið 1935 á Suðureyri við Súgandafjörð en fluttist ung til Reykjavíkur og var uppgötvuð átján ára. Jónatan sagði okkur meira frá hennar söngferli og ævi í þættinum.

Við fengum svo að lokum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Póstkortið berst frá Þýskalandi að þessu sinni. Í því segir frá jólamörkuðum sem eru forn þýsk hefð allt frá fjórtándu öld. Jólamarkaðurinn þykir ómissandi hluti af aðventunni og þar hafa myndast margar skemmtilegar hefðir i gegnum aldirnar og hefur hver borg sinn sérstaka stíl. En það sem er sameginlegt með þeim öllum er hefðbundin matur og drykkur, kökur, sætabrauð og jólaglögg, eða Gluhwein eins og þjóðverjar kalla það. Einnig er fjallað um jólatónlist sem hefur breyst mikið í áranna rás.

Tónlist í þættinum:

Senn koma jólin / Sigríður Beinteinsdóttir (Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, texti Kristlaug María Sigurðardóttir)

Hátíðarfiðringur/Pálmi Sigurhjartarsson og Unnur Birna Bassadóttir(Pálmi Sigurhjartarsson -Herdís Anna Þorvaldsdóttir )

Kom þú til mín / Adda Örnólfs og Hljómsveit Carls Bilich (Kristinn Magnússon, texti Jón Ingiberg Bjarnason)

Bella símamær / Adda Örnólfs (lagahöfundur ókunnur, texti Guðmundur Guðmundarson)

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
e
Endurflutt.
,