Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir.
Í gær var veisla hér í Útvarpshúsinu þegar Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2024 voru afhentar að viðstöddum viðurkenningarhöfum og gestum. Veittar voru tvær viðurkenningar úr Rithöfundasjóði og tilkynnt um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs á árinu. Mugison fékk Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning, og tilkynnt var um valið á orði ársins 2024, sem er hraunkælingarstjóri, eins og komið hefur fram í fréttum.
Birnir Jón Sigurðsson hlaut hvatningarverðlaun Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins, en þetta árið er það Áslaug Jónsdóttir sem er handhafi viðurkenningar Rithöfundasjóðs RÚV. Ásdís segir sjálf að hún sé bókverkakona, en frá 1990 hefur hún ritað og myndlýst fjölda barnabóka, skrifað ljóð og leikrit, auk þess að taka þátt í myndlistar- og bókverkasýningum. Hennar nýjustu sköpunarverk eru ljóðabókin Til minnis og limrubókin Allt annar handleggur, sem komu út árið 2023 og Skrímslaveisla sem kom út í fyrra, en Ásdís er sennilega þekktust fyrir bækurnar um skrímslin sem eru orðnar 11 talsins. Ásdís verður gestur okkar í þætti dagsins.
Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands fara fram í Eldborg Hörpu í kvöld og næstu tvo daga. Sambærilegir viðburðir fara fram í öllum helstu borgum Evrópu í upphafi árs og tónleikum Vínarfílharmóníunnar er sjónvarpað um heim allan á nýársdag. Vinsældir vínartónleika eru gífurlegar og áheyrendur flykkjast í tónleikasalina til fagna hefðinni og nýju ári í lakkskóm og pallíettukjólum. Margir gætu haldið að rætur slíkra hátíðahalda lægju í menningarblóma 19. aldar. En sagan er talsvert styttri en svo og á sér raunar nokkuð dökkar hliðar.
Við heyrum einnig leikhúsrýni í þætti dagsins. Að þessu sinni rýnir Katla Ársælsdóttir í jólasýningu Þjóðleikhússins, Yermu eftir ástralska leikskáldið Simon Stone.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir