Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.
netfang: [email protected]
Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.
(Aftur í kvöld)
Ríflega 30 þúsund konur á aldrinum 18-69 ára tóku þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna, á árunum 2018-2019, sem gerir rannsóknina að einni þeirri stærstu sinnar tegundar á heimsvísu. Konurnar svöruðu ítarlegum spurningalista, meðal annars um áföll á mismunandi ævistigum, geðræn einkenni og heilsufar á fullorðinsárum. Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum fræðikvenna við Háskóla Íslands og niðurstöðurnar hafa verið birtar í fjölmörgum vísindagreinum í virtum alþjóðlegum vísindaritum. Þær hafa meðal annars sýnt að 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og það er sterkur áhættuþáttur ýmissa geðrænna einkenna/raskana og hjarta- og æðasjúkdóma. Arna Hauksdóttir prófessor í Lýðheilsuvísindum kom í þáttinn og sagði okkur betur frá og því að aðstandendur rannsóknarinnar eru að fara af stað með eftirfylgdarrannsókn þar sem leitað er til kvennanna 30 þúsund sem tóku þátt í upphafi.
Landssamtökin Geðhjálp hafa ýtt úr vör hinu árlega 30 daga geðræktarátaki sem ber heitið G-vítamín. Í ár er fjórða árið sem samtökin standa fyrir þessu átaki á þorranum. Geðhjálp býður því upp á 30 dagleg hollráð sem er ætlað að bæta geðheilsu landsmanna yfir Þorrann. Þessir 30 skammtar af hollráðum eru kallaðir G-vítamín. Á föstudaginn verður styrktarþáttur í beinni útsendingu hér á RÚV, í sjónvarpinu, G vítamín - Gott fyrir geðheilsuna. Þar verður stóra mynd geðheilbrigðismála Íslendinga skoðuð í áhugaverðri og skemmtilegri útsendingu, eins og segir í fréttatilkynningu. Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og stjórnarmaður í Geðhjálp kom í þáttinn og sagði okkur betur frá þættinum og G vítamíninu.
Við fengum svo póstkort í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Í korti dagsins bar Magnús saman Kúbu og Cabo Verde þar sem hann er í heimsókn núna. Þjóðir með svipaðan uppruna en ólík örlög. Hann segir frá sérkennilegum frönskum aðalsmanni sem settist að á einni eyjunni seint á nítjándu öld og varð elskaður og dáður af fólkinu og af honum er kominn mikill ættbogi. Magnús segir líka af fólki sem hann hefur kynnst í borginni Praia, fyrrum embættismanni og lækni, þjóni og þúsund þjala smiði, efnilegri söngkonu og hennar meðspilurum.
Tónlist í þætti dagsins:
Brauðbúðarbúgí / Borgardætur (Wolfie & Wood, texti Einar Thoroddsen)
Ókeypis / Egill Ólafsson og finnsk-íslenska vetrarbandalagið(Matti Kallio og Egill Ólafsson)
Let your boss be your lesson / Allison Krauss og Robert Plant ( Milt Campbell)
Jacaré sumiu / Alcione (Mauro Diniz & Sereno)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR