12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 15. mars 2023
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Umboðsmaður Alþingis telur að dómsmálaráðherra hafi gerst sekur um samráðsleysi við ákvörðun um að vopna lögreglu rafbyssum. Það hafi verið mikilvægt stjórnarmálefni, sem hefði átt að ræða í ríkisstjórn. Umboðsmaður vísar í þessu samhengi í Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde.

Útlit er fyrir versnandi fjármálaskilyrði, þráláta verðbólgu og að greiðslubyrði lána þyngist enn frekar, að mati fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Greiningardeildir spá tólftu stýrivaxtahækkuninni í röð í næstu viku.

Rússnesk stjórnvöld vísa því á bug að hafa grandað bandarískum dróna sem brotlenti í Svartahafi. Bandarísk stjórnvöld vilja ekki að dróninn lendi í röngum höndum.

Evrópusambandið undirbýr sendingu skotfæra fyrir um hundrað og fimmtíu milljarða króna til Úkraínu, aðallega fyrir stórskotabyssur.

Lagt er til í nýrri skýrslu að ríkið styðji við kornrækt í landinu fyrir um hálfan milljarð króna á ári, að stofnað verði kornsamlag og bændur fái heimild til veiða fugla sem valda tjóni á ökrum.

Allt bendir til þess að loðnuvertíðinni sé að ljúka. Loðnan er komin fast að hrygningu og bjartsýnustu útgerðarmenn telja um viku eftir af vertíðinni.

Ferðamenn sem létta á sér við húsvegg á Djúpavogi eru orðnir svo þrálátt vandamál að heimastjórnin ætlar að senda fyrirtækjum í húsinu formlegt erindi um að koma þurfi upp salernisaðstöðu hið fyrsta.

Hvorki Albert Guðmundsson né Birkir Bjarnason eru í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu sem tilkynntur var í morgun.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,