06:50
Morgunútvarpið
17. ágúst - Úthöfin, orkumál og vegakerfið
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Pysjueftirlitið greindi frá því í gær að fyrsta pysja þessa árs hefði fundist við Kertaverksmiðjuna í Vestmannaeyjum í gær - og að nú megi reikna með að fleiri pysjur fari að finnast í bænum. Við ræddum við Margréti Lilju Magnúsdóttur, sem komið hefur að þessum skráningum, og spyrja út í tímabilið framundan.

Leiðtogar heims reyna nú enn á ný að komast að samkomulagi til að draga úr ofnýtingu úthafanna - en áratugur er liðinn síðan Sameinuðu þjóðirnar reyndu fyrst að fá sérstakan samning um verndun úthafanna samþykktan. Ísland er sagt í vegi slíks samnings en stjórnvöld á Íslandi og í Rússlandi vilja að fiskveiðar verði ekki settar inn í samning þjóðríkja um verndun hafsins. Við ræddum við Snjólaugu Árnadóttur, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðing í hafrétti, um samningaviðræðurnar og afstöðu Íslands.

Höfuðið á Þorsteini Valdimarssyni skáldi hvarf úr Hallormsstaðaskógi fyrir helgi, en styttan hafði staðið þar í áratugi. Ekkert miðar áfram í rannsókn á hvarfinu en Margrét María Sigurðardóttir lögreglustjóri á Austurlandi var á línunni hjá okkur um málið.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna hittust á árlegum sumarfundi sínum á mánudag og samþykktu meðal annars þá ályktun að stefna að algjöru sjálfstæði frá viðskipum við Rússland þegar kemur að orkumálum. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri kom til okkar til að gera þetta upp.

Sveitarstjórar á Suðurlandi leggjast gegn áformum um vikurflutninga frá Mýrdalssandi um þjóðveginn eins og áætlanir fyrirtækisins EP Powers Minerals gera ráð fyrir - en þar er stefnt að því að keyra, næstu hundrað árin, með fulla vörubíla af vikri frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar á fimmtán mínútna fresti. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar er búin að skoða málið undanfarna daga með sínu fólki, og kom til okkar.

Á mánudaginn var ár liðið frá því að Talibanar náðu aftur völdum í Afganistan. Síðan þá hafa íbúar landsins þurft að glíma við skert réttindi og mikla efnahagskreppu. Við ræddum stöðu Afganistan í dag við Brynju Huld Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðing og fyrrum starfsmann Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.

Var aðgengilegt til 17. ágúst 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,