18:00
Spegillinn
100 kíló af kókaíni, mánaðarlegar hitabylgjur og stjórnmál í USA
Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Fjórir eru í haldi vegna 100 kílóa af kókaíni sem fundust í vörusendingu á leið til landsins. Þetta er langmesta magn sem lögregla hefur lagt hald á í einu.

Skóla- og frístundasvið kom saman í dag til að ræða stöðuna í leikskólamálum í borginni. Ekki er hægt að úthluta 200 lausum plássum vegna manneklu. Urður Örlygsdóttir tók saman og talaði við Árelíu Eydís Guðjónsdóttur og Harald Frey Gíslason.

Umhverfisráðherra leggst gegn áformum um þungaflutninga vikurs á Suðurlandi. Hann segir dæmið ekki ganga upp. Sunna Karen Sigurþórsdóttir talaði við Guðlaug Þór Þórðarson.

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kallar eftir tafarlausum aðgerðum vegna neyðarástands í Tígray í Eþíópíu. Hann segir milljónir manna búa við hörmungar, sem alþjóðasamfélagið hafi að mestu litið fram hjá. Ólöf Erlendsdóttir tók saman.

Markverðar hitabylgjur hafa verið í hverjum einasta mánuði ársins. Veðurfræðingur segir að búast megi við fleiri og verri hitabylgjum. Hafdís Helga Helgadóttir tók saman og talaði við Halldór Björnsson

Liz Cheney, þingmaður Repúblikana á Bandaríkjaþingi, fékk slæma útreið í forkosningum í gær vegna andstöðu við Donald Trump, fyrrverandi forseta. Talsverðar líkur eru á að þau berjist um útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar 2024. Ásgeir Tómasson tók saman.

Tugþúsundir falsaðra ferðavottorða voru gefin út í covid-faraldrinum af sænsku fyrirtæki án þess að sýni úr fólki væru nokkurn tíma rannsökuð. Höfuðpaurinn í málinu er grunaður um að ýta undir útbreiðslu smitsjúkdóms og á yfir höfði sér ævilangt fangelsi. Nú hefur málið hins vegar verið lagt á ís og útlit fyrir að enginn verði látinn sæta refsiábyrgð. Kári Gylfason tók saman.

Umsjón þáttarins hafði Hafdís Helga Helgadóttir og tæknimaður í útsendingu var Magnús Þorsteinn Magnússon.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 30 mín.
,