16:05
Víðsjá
Svipmynd af Bergi Þórissyni, UNM á Íslandi og Fransesca Woodman
Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Ung Nordisk Musik hátíðin fer fram á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. UNM er samstarfsvettvangur og uppskeruhátíð tónsmiða frá nyrstu löndum Evrópu, sem í ár telur líka með Eistrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litháen. Hátíðin hófst á mánudag og klárast á sunnudagsmorgun og á dagskrá hennar er fjöldinn allur af tónleikum, innsetningum, málþingum, sýningum og vettvangsferðum. Allt þetta og meira til, afsprengi vinnu ungu kynslóðarinnar meðal tónsmiða og kollega þeirra þvert á listgreinar. Við fengum þau Sóleyju Sigurjónsdóttur og Þorkel Nordal til að segja okkur nánar frá hátíðinni.

Helga Rakel Rafnsdóttir flytur okkur pistil um bandarísku listakonuna og ljósmyndarann Fransescu Woodman, sem á sinni stuttu ævi skapaði einstök ljósmyndaverk með sterkum höfundareinkennum, þar sem líkami hennar sjálfrar var oftar en ekki í forgrunni.

Bergur Þórisson er tónlistarmaður og tónlistarstjóri sem byrjaði snemma að blása í básúnu og fikta við tæki og tól í hljóðverum. Hann er annar tveggja meðlima í Hugum, hljómsveit sem hann stofnaði ásamt æskuvini sínum af Seltjarnarnesi. Hann hefur hlotið Bafta verðlaun og Grammy-tilnefningu, og hefur gert mikið af því að vinna tónlist í samstarfi við aðra. Síðastliðin sex ár hefur hann verið tónlistarstjóri Bjarkar. Bergur verður gestur okkar í nýjum dagskrárlið Víðsjár, Svipmyndinni, kemur með nokkur lög, segir okkur frá ferlinum og svarar auk þess nokkrum spurningum úr Proust spurningalistanum.

Umsjónarmenn: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 55 mín.
,