09:03
Píanóskáldið Robert Schumann
Fjórði þáttur
Píanóskáldið Robert Schumann

Robert Schumann (1810–1856) var eitt merkasta tónskáld nítjándu aldar. Hann er erkitýpa hins rómantíska snillings og sveiflaðist stöðugt á milli oflætis og deyfðar, ofsalegra afkasta og algjörs aðgerðaleysis. Draumur Schumanns um að verða konsertpíanisti rættist ekki, en fyrsta áratug tónsmíðaferils síns helgaði hann píanóinu alla krafta sína og voru 23 fyrst útgefnu tónverk hans samin fyrir einleikspíanó. Þar á meðal eru mörg af merkustu og þekktustu verkum sem skrifuð hafa verið fyrir hljóðfærið. Sex þeirra hljóma í þessari þáttaröð, öll samin á gríðarlega frjósömu fjögurra ára tímabili (1834–38) og þrungin persónulegum tilvísunum og táknum. Í þáttunum er ljósi varpað á þessi tengsl með brotum úr dagbókum og bréfum og sagt frá áhrifum ástarmála hins unga tónskálds á tilurð verkanna.

Umsjón: Halldór Hauksson.

Schumann hófst handa við að semja Davidsbündlertänze, op. 6, í ágúst 1837, örfáum dögum eftir að Clara Wieck hafði gefið honum til kynna í bréfi að hún vildi deila lífi sínu með honum, og hafði lokið uppkasti að því um miðjan september. Áhrif unnustunnar ungu á tilurð þessara átján dansa eru ljós strax í byrjun verksins þegar Schumann vitnar í masúrka sem er að finna í verki eftir Clöru. „Þessir dansar geyma margar hugsanir um brúðkaup okkar – þeir urðu til í mestu sælutilfinningu sem ég hef nokkurn tíma upplifað!“ En verkið er líka menningarpólítískt innlegg. Schumann skar upp herör gegn því sem honum fannst vera yfirborðskennt og innihaldsrýrt í tónlist. Í huga hans varð til fylking persóna, með raunverulegar fyrirmyndir að meira eða minna leyti, sem barðist við hlið hans undir merki hins forna Davíðs konungs gegn hinum skammsýnu Filisteum samtímans. Í Dönsum Davíðsbandalagsins kviknar þessi heillandi heimur til lífs.

Lesarar með umsjónarmanni eru Jóhannes Ólafsson og Halla Harðardóttir.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,